26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

28. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki svara miklu hv. 4. landsk. (ÁkJ). Ég hef aldrei svarað því, sem beint er til mín persónulega, og hann má tala um hvaða hvatir hjá mér, sem hann vill, sem ég hafi haft til að bera fram mína brtt. Ég svara ekki hans aðdróttunum.

Ég er búinn að benda þessum hv. þm. á, að till. hans um að hafa jafnmarga meðmælendur í þeim kjördæmum, þar sem eru hlutfallskosningar, og hinum, hún minnkar, ef samþ. verður, meðmælendatöluna frá því, sem nú er, þar sem hver frambjóðandi hefur rétt til 12 meðmælenda. Í mínum augum er það ekkert aðalatriði út af fyrir sig, hvort meðmælendurnir eru fleiri eða færri, heldur hitt, hvort eigi að taka upp þá stefnu að hafa meðmælendurna sem fæsta, kannske aðeins 5 eða bara 2, til þess að menn geti boðið sig fram til þingmennsku, sem ekkert fylgi hafa. T. d. um Norður-Múlasýslu þá var hv. 4. landsk. að tala um, að hans flokksmenn, sósíalistar, mundu ekki eftir minni brtt. hafa nægilega marga meðmælendur í sýslunni til þess að geta haft frambjóðanda þar. Ég hygg, að einn flokkur, sem talað hefur verið fyrir hönd hér, hafi 31 atkv. í sýslunni, en annar 37. Sveinn á Egilsstöðum var kosinn 7 eða 8 sinnum með sósíalistum. Hvers flokks menn eru það? Ég veit það ekki. Og ég veit ekki, hvort kjósendurnir hafa gert sér grein fyrir því sjálfir, þegar þeir kusu. Það, sem vakir fyrir mér, er ekki að útiloka litla flokka, — það er algerður misskilningur. — Það eru til landslistar, og eftir því kerfi, sem er hjá þeim sósíalistum, þá eru þeir ekki í neinum vandræðum með það að láta kjósa landslista. Það er því fjarri því, að menn geti ekki kosið þann flokk, sem þeir vilja, þó að gerðar séu ráðstafanir til þess að torvelda, að menn, sem hafa ekki nema kannske 2 atkv. eða 5–20 atkv., geti boðið sig fram í kjördæmi. Hér er um að ræða, hvor þessara tveggja stefna á að ráða, að fækka meðmælendunum eða ekki. Og það er ekki hærra spenntur boginn hjá mér heldur en það, að 50 menn mæli með kosningu frambjóðenda í tvímenningskjördæmi.

Út af því, sem hv. 6. landsk. þm. (GÞ) sagiði, vil ég enn undirstrika það, að ég tel það ákaflega mikils virði víða á landinu að geta haft kjörstjóra, sem ekki eru hreppstjórar, vegna þess, hvernig hreppstjórarnir eru settir. Þeir staðir eru líklega milli 10 og 20, þar sem hreppstjórar eru svo settir, að það er ákaflega miklum erfiðleikum bundið fyrir menn að kjósa hjá þeim. En þar er alfaraleið um annað stað heldur en þann, sem þeir eiga heima, og þar eiga menn að geta kosið. Ég gæti nefnt frá síðustu kosningum fleiri dæmi um það, að það fyrirkomulag í þessu efni, sem nú gildir, varð til þess, að þeir menn, sem vildu kjósa og þurftu að fara út úr hreppnum; og eins þeir menn, sem þar voru staddir héðan úr Rvík og víðar að, þeir höfðu sig ekki í að fara langa leið til hreppstjóra til þess að kjósa. En þar er kauptún, sem skip koma til og fara frá og allir eiga leið í eða úr, sem koma inn í eða fara út úr hreppnum, þannig að allir þessir menn hefðu því getað kosið þar, án aukaferðalaga. Ég legg töluvert upp úr þessu.

Um skrifl. brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. skal ég ekki ræða strax, en ég tel ekki þörf á að hafa tvo kjördaga í kaupstöðum, þó að menn hljóti að sjá, að þegar komið er út í dreifbýlið, þar sem er langt að fara á kjörstað, sums staðar upp undir 10 km og nokkuð víða milli 40 og 50 km og víða líka ekki fært bifreiðum, þá er nauðsynlegt að hafa heimild til þess í l. að geta haft tvo kjördaga þar. Sums staðar er líka fátt um hesta á slíkum stöðum. Ég man eftir heimili með 8 manns, sem hafa kosningarrétt, þar sem eru aðeins 2 hestar, og þar eru 45 km til kjörstaðar. Það er ekki fljótlegt að selflytja fólk á slíkum og þvílíkum stöðum til þess að kjósa á einum 6 klst., en tími mundi ekki vera meiri til slíkra ferða, ef aðeins einn kjördagur yrði hafður þar í kjördæminu nú í haust. (JPálm: Það er hægt að stofna þar bara kjördeild). Til þess þarf 20 kjósendur. En til hins finnst mér engin ástæða að ætla kaupstaðabúum tvo kjördaga, og er og því á móti því að hafa tvo kjördaga í kaupstöðum. En sumum hv. þm. finnst þó goðgá að ákveða að hafa þar aðeins einn kjördag. Með núverandi fyrirkomulagi nægir, að fáein hús taki sig saman um það, t. d. hér í Rvík, að hafa kjördaga 2, 3 eða jafnvel 5, ef samtök eru um, að einhverjir mæti á stundarfjórðungs fresti. 96 menn geta með samtökum lengt kosningu í kaupstað um sólarhring. Sömu mönnum finnst þó ekki ástæða til að hafa tvo kjördaga í sveit, þar sem er svo langt og erfitt að fara til kjörstaða. Ég get ekki séð samræmi í þessu.