26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að þeir einir hefðu rétt til að greiða atkv. utan kjörstaðar, sem byggjust við að vera fjarstaddir á kjördag. En hvaða maður getur ekki sagt, að hann ætti að vera fjarstaddur á kjördag? Ég tel, að flestir kjósendur gætu gert ráð fyrir því. Það verður engum skotaskuld úr því að finna sér átyllu til þess, ef hann vill kjósa fyrir kjördag.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hann sæi enga ástæðu til að hafa fleiri meðmælendur í tvímenningskjördæmum en einmenningskjördæmum, og ég get verið honum sammála um það, en það verður þó að gera mun á því, hvort 4 menn eru í framboði á einum lista eða bara einn maður, og nær auðvitað engri átt, að 12 meðmælendur verði látnir nægja fyrir þessa 4 menn, því að það táknar auðsjáanlega stórum lækkaða lágmarkstölu meðmælenda.