31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

28. mál, kosningar til Alþingis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af brtt. á þskj. 161 um ákvæði til bráðabirgða, vil ég fyrir mína hönd lýsa yfir því, að ég er alveg samþykkur hv. þm. Str. (HermJ) um, að það sé óheppilegt, að hafa inni í þeirri setningu orðin: „og því sé ekki mótmælt af frambjóðendum eða umboðsmönnum þeirra“. Frambjóðendur og umboðsmenn þeirra eiga á engan hátt að hafa nokkuð um það að segja, hvort kosningu skuli frestað eða ekki. Það vald á að liggja hjá kjörstjórn, sem er valin til þess starfa að gæta réttlætis við kosningar og vera ekki „partisk“. Og venjulega, — þó að það sé ekki alveg ugglaust, — er það svo um kjörstjórnir, að þær eru skipaðar hlutlausum mönnum eða þá mönnum af öllum flokkum, ef hægt er að koma því við. Ég mun flytja brtt. um það, að þessi setning sé látin falla burt úr a-lið 3. brtt. á þskj. 161.

Hitt, sem sá hv. þm. ræddi um, að kjósendur kynnu að koma að lokuðum dyrum næsta dag, er byggt á misskilningi, vegna þess að það er skýrt til tekið og greinilega, hvernig eigi að fara með þau mál, í 134. gr. kosningal., ef fresta þarf kosningu, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það mál frekar.