31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sigurjón Á. Ólafsson :

Ég get verið fáorðari en ella, sökum þess að ég hef fallizt á að taka ákvæði til bráðabirgða aftur til 3. umr., en það voru þær umr., sem hér hafa orðið út af brtt., sem komu mér til að kveðja mér hljóðs. Það var hv. þm. Str., sem beindi þeim orðum til okkar nm., að mér skildist, okkar, sem vorum í meiri hl., að við skildum ekki íslenzka veðráttu og vissum ekki, að hún stöðvaði kjörsóknina, því að hann gengur út frá því sem gefnu, að það hljóti að verða þreifandi öskubylur á þeim degi, sem kosið verður. Við ræddum það í n., hvort það ætti að skapa tvo kjördaga og brjóta þá meginreglu, sem hefur verið í l. okkar frá fyrstu tíð, eins og ætlazt er til með bráðabirgðaákvæði því, sem hv. Nd. setti inn. Þessi miðlunarleið er umdeild, og skal ég ekki rökstyðja till. okkar, en við töldum nauðsynlegt að finna einhverja þá leið, sem þm. gætu orðið sammála um, til þess að koma fyrir kattarnef því, sem við teljum, að eigi ekki að vera í frv., tveimur kjördögum. Það hefur verið gagnrýnt, að of mikið vald sé gefið einum einstökum manni, frambjóðanda eða umboðsmanni hans. Um það má deila, en ég vil vekja athygli á því, að svo getur hagað til, að þeir flokkar geti verið í kjördæminu, sem engan mann eiga í kjörstjórn, og hvaða réttlæti er í því, að kjörstjórn sé skipuð mönnum úr einum eða tveimur flokkum, og beiti svo hina flokkana sennilega ofríki? Ég skal svo ekki fara nánar út í það. Um hitt atriðið, 2 kjördaga, vildi ég segja þetta: Ræðumaður lagði á það mikla áherzlu, hversu tveir kjördagar væru nauðsynlegir í sveitunum, og er rétt, að við gerum okkur ljóst, hvernig hlutfallið er milli kjörsóknar í sveitum og kaupstöðum. Ég hef hér hjá mér allar skýrslur yfir kosningar frá því 1916, en ekki hagskýrslu yfir kosningarnar 1916. Og það merkilega skeður, að kjörsóknin í sveitum, — en kosningarnar fara þá fram að haustlagi —, er hlutfallslega meiri en í kaupstöðum. Veður hefur sennilega verið gott, en það sýnir, að það getur verið gott veður, þótt þessi tími sé kominn. Við skulum taka árin 1919 og 1923, og er skemmst af því að segja, að kjörsóknin er þá í sveitunum fyllilega sambærileg kjörsókninni í bæjunum eftir því, sem hægt er að sjá. Ég ætla ekki að lesa upp tölur. Þær getur hver þm. séð. M. ö. o., í miklu fleiri tilfellum getur verið þess að vænta, að veðrið verði gott á kjördaginn en að það verði vont. Menn mála djöfulinn á vegginn og halda, að það verði fárviðri, þegar kosningarnar fara fram.

Ég vildi þá fara nokkrum orðum um brtt., sem við gerðum við 27. gr., þar sem hv. Nd. gerði ráð fyrir að fjölga meðmælendum í tvímenningskjördæmum frá því, sem gert hafði verið ráð fyrir, en við, meiri hl. allshn., viljum færa í sitt upprunalega horf, eða í 12 fæst og eigi fleiri en 24 meðmælendur, og færum þau rök fyrir því, að við viljum ekki gera þetta að opinberum kosningum. Aukinn meðmælendafjöldi þýðir það, að verið er að gera kosninguna opinbera fyrir fámenna flokka. Við þekkjum það, að í sveitum er svo mikið flokksvald, að það getur verið óþægilegt fyrir menn, þótt flokksmenn séu, að þurfa að sýna sig sem opinbera meðmælendur, og ætla ég ekki að drótta því að neinum sérstökum flokki, en þetta er eitt af því, sem ég hef á móti því að auka meðmælendafjöldann. Frsm. hefur réttilega bent á það, að það á ekki að gera mun, hvort frambjóðendur flokks eru 1, 2 eða fleiri.

Um hina breyt., að láta kosningu standa fram yfir kl. 12, vil ég segja, að það er svo mikið smámál, því að það er hvort sem er hægt að láta kosninguna hætta á 15 mín. fresti. Ég þekki þess dæmi í þrjú skipti, að skip hafa komið inn á höfn kl. 12. Þau ætluðu að koma fyrr, en gátu það ekki. Það var óveður í tveimur tilfellunum og smávegis vélarbilun í einu, sem olli töfunum. Þetta þýðir það, að ef það hefði verið hætt fyrr, hefðu þessir kjósendur verið útilokaðir frá því að neyta atkvæðisréttar síns. Því tel ég, að þetta eigi að standa eins og það hefur staðið og með vitund kjörstjórnar eigi að mega draga kosningu þann skamma tíma, sem nú er gert ráð fyrir. Ég lofaði hæstv. forseta því, að ég skyldi ekki verða langorður, en vildi aðeins minnast á þessi atriði.