31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

28. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) spyr að því, hvort það sé lýðræði, að þeir, sem meiri hl. hafa í tvímenningskjördæmi fái einn þm. kosinn, en minni hl. fái tvo þm. kosna þar. Það má segja, ef litið er á þetta kjördæmi eitt sér, að þetta sé ekki lýðræði. En niðurstaðan verður þessi: Því aðeins kemur það til greina, að sá flokkur, sem hefur minni hl. atkv. í slíku kjördæmi, eigi svo mörg atkv., sem afgangs verða frá öðrum kjördæmum, að hann eigi á þann hátt rétt til þess, bæði samkv. þessum l., sem hér er verið að setja, eins og hv. þm. réttilega gat um, og einnig samkv. réttum reglum lýðræðisins. Það, sem sagt, leiðir af afgangsatkv. úr hinum kjördæmunum. Þetta brýtur því ekki í bága við almennar réttarreglur, heldur leiðir af því, að það er verið að reyna að samræma kosningar í kjördæmunum við réttar reglur lýðræðisins. Það er orsökin til þess, að þetta kemur þannig út. Og hv. 1. þm. Eyf. vill halda á rétti kjördæmanna, og það viljum við líka. En við viljum það því aðeins, að það sé hægt að samræma það réttum lýðræðisreglum, sem hann hefur ekki viljað fallast á fram að þessu. Ég skal ekki þrátta við hv. 1. þm. Eyf. (BSt). En það er eitt atriði rétt í því, sem hann heldur fram og ég er fús til að taka til frekari athugunar. Ég skal játa, að mér sýnist hann hafa sýnt fram á, að það sé rangt að láta annan frambjóðandann þurfa að fá ¾ af öllum atkvæðunum. Mér skilst, að það sé sanngjarnt, að hann fái ekki nema helming af þeim. Og ég vil taka fyllilega til athugunar, hvort ekki er hægt að sameinast um brtt. um þetta atriði. Ég neita því, að það sé rétt, sem hv. þm. sagði, að það sé rétt að útiloka þessa menn alveg frá uppbótarsætum. Það væri rangt. Ef þeir fá rétt hlutfall, þá eiga þeir sanngirniskröfu á því, samkv. reglum lýðræðisins, að fá að hlotnast uppbótarsæti. En þá er eftir að finna hlutfallstöluna, sem eftir á að fara. Mér virðist hv. 1. þm. Eyf. hafa sýnt fram á, að það sé ósanngjarnt að miða við við atkv. Hitt sýnist mér eðlilegra að miða við helming atkv. Ég áskil mér þó rétt til að hugleiða þetta betur. Og þar sem ég játa, að hv. þm. hefur fært nokkur rök fyrir því, að rétt sé að miða við helming atkvæða, vil ég mælast til þess, — ekki endilega, að brtt. verði tekin aftur nú, en að þetta verði athugað áður en endanlega er gengið frá málinu.

Viðvíkjandi dæminu, sem hv. 1. þm. Eyf. tók, er það að segja, að ég hef svarað því, bæði með þessu, sem ég nú sagði, og því, sem ég hef áður sagt.

Varðandi það, sem hv. þm. Str. (HermJ) sagði, get ég verið mjög fáorður. En það er eitt, sem mér virðist honum skjótast ákaflega yfir í allri sinni röksemdaleiðslu. Ef tveir kjördagar eru lögboðnir, eins og hann ætlast til, að sé gert, þá skilst mér, að þeir eftir hans till. séu hvor á fætur öðrum, þannig að síðari kjördagurinn verði þá strax næsta dag eftir aðalkjördaginn. Nú er ég ekki kunnugur veðurfari úti um land. En hér í Rvík er það oft svo, ef slæmt veður er einn dag, að þá er því veðri a. m. k. ekki með öllu lokið næsta dag á eftir. Og ég get ekki betur séð, en það sé ákaflega varhugavert að láta tvo kjördaga vera með þeim hætti, sem þessi og fleiri im. þm. vilja, heldur sé hitt miklu heppilegra einmitt fyrir sveitirnar að hafa möguleika til frestunar á síðari kjördeginum, ef þörf er á, sem við viljum fallast á. Mér virðist það betra fyrir sveitirnar heldur en að hafa þá hvorn eftir annan; auk þess sem afleiðingin af því að hafa tvo kjördaga yrði sú víðast, að kjörsókn yrði mjög lítil fyrri daginn. Og ef veður yrði vont aðalkjördaginn, gæti brugðið til beggja vona með veðrið síðari kjördaginn og möguleika til þátttöku í kjörsókn. Mér virðist tilgangur löggjafans hljóta að verða sá að fá kjósendur til þess að sækja kjörstaðinn á þeim degi, sem til tekinn er sem aðalkjördagur. En ef reynslan sýnir, að á þessum aðalkjördegi hamlar óveður eða ófærð kjörsókn, þá eigi löggjafinn að gefa kjósendum möguleika á að fresta kosningunni. Og það er ráðgert í brtt. okkar. En hitt er annað mál, hver á að ákveða um það. Ég vil ekki hafa tvo kjördaga nema full ástæða sé til þess.

Ég get fallizt á að athuga til 3. umr., hvort ekki er hægt að finna betri leið í þessu atriði heldur en felst í till. hv. þm. Str. Fyrir sveitirnar, hygg ég, að það fyrirkomulag sé miklu öruggara og vænlegra til góðrar kjörsóknar, sem felst í okkar till., heldur en sú meginhugsun, sem er í hinni till., þó að það skuli játað, að alltaf getur hitzt svo á, að óveður sé tvo kjördaga , þó að þeir séu með millibili. En fyrir slíkt verður aldrei girt með nokkurri vissu.