02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég heyrði lítinn hluta af ræðu hæstv. atvmrh., en í þeim hluta, sem ég hlustaði á, kom sú skoðun fram, að rétt væri að samþykkja bráðabirgðaákvæðið eins og það kom frá hv. Nd. Mér kemur þetta mjög undarlega fyrir eyru, því að það virðist svo sem Sjálfstfl. sé nú að skipta um skoðun, ekki aðeins frá því, sem var í Nd., heldur einnig frá afstöðu flokksins, eins og hún var túlkuð af fulltrúa flokksins í n. þeirri, sem fjallar um þetta mál hér í hv. d. Í hv. Nd. var því svo háttað, að allir sjálfstæðismenn voru á móti ákvæðinu nema tveir, og það kemur ekki fram fyrr en nú í umr., að flokkurinn gangi nú inn á að samþ. þetta. –Breyt. þær, sem meiri hl. allshn. leggur nú til, er að gera ákvæðið rýmra, og taldi það fullnægjandi. Ég veit ekki, hvernig á þessum straumhvörfum stendur, en ef til vill er það af ótta við það, að sú leið, sem meiri hl. allshn. fer, sé ekki eins gott áróðursefni í sveitunum eins og hitt. — Um það verður ekki deilt, að með tveimur dögum notfærir fólkið sér að draga kosninguna til seinni dagsins af ýmsum ástæðum, þótt ekki hamli veður, því að það er vitað mál, að mjög hægt er um vík að koma af stað áróðri í sambandi við tvo kjördaga, ekki sízt, ef kunngert er fyrri daginn, hvernig kosning hafi farið í bæjunum. — Ef t. d. kosningin í Rvík hefur verið óhagstæð Sjálfstfl., þá hlýtur það óhjákvæmilega að verka á kjósendur úti um land. — Ég vil aðeins benda Sjálfstfl. á þetta, því að þetta snertir framsfl. ekki, þar eð hann hefur engra hagsmuna að gæta í bæjunum. Mér finnst þetta mjög óheillavænleg stefna, en hitt er annað að gefa sveitakjördæmum möguleika til þess að hafa tvo kjördaga, ef fresta þarf kosningu vegna óveðurs, og þá er hægt að fresta kosningu samkv. 134. gr., eins og meiri hl. allshn. leggur til. — Ég vænti þess, enda þótt útséð sé um örlög þessa máls, að brtt. verði bornar upp þannig, að í ljós komi, hverjir vilja hafa tvo kjördaga og hverjir ekki. — Ég skal svo ekki tefja með frekari umr. af minni hálfu, en vil benda á það, hvort ekki sé réttara, áður en lengra er farið, að setja inn í bráðabirgðaákvæðið, að eigi megi telja í neinum kjördæmum, fyrr en kosningu sé lokið alls staðar á landinu. — Ég hef átt tal um þetta við ýmsa hv. þm., og þeir eru mér sammála um þetta.