02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

28. mál, kosningar til Alþingis

Hermann Jónasson:

Það er óþarft að lengja umr. um þessi atriði, sem hér eru rædd, sérstaklega þau, sem snerta tvo kjördaga í sveitum, á þann hátt, sem samþ. var í hv. Nd.

Ég tel það ekki vera mikið atriði, sem hv. 9. landsk. (SÁÓ) gerði að verulegu atriði í þessu sambandi, þ. e., að kjósendur muni skipta um skoðun, ef þeir frétta um úrslitin í öðrum kjördæmum og höguðu kosningu í samræmi við það.

Þegar verið er að finna lausn á einhverju máli, þá er ekki nema eðlilegt, að menn hagi sér í atkvgr. í samræmi við þær upplýsingar, sem fram koma. Það er ekki nema eðlilegt, að ýmsir hv. þm. séu ekki allir jafnkunnugir staðháttum út til sveita, og það er síður en svo niðrandi fyrir þá, þótt þeir skipti um skoðun, ef þeim eru gefnar upplýsingar um staðhætti þar, sem þeim voru eigi áður kunnar. Mér finnst þess vegna, að hv. 9. landsk. ætti ekki að ámæla þeim, sem skipta um skoðun af þessum ástæðum, heldur taka þá sér til fyrirmyndar. Það er ólíkt meira öryggi í því fyrir sveitirnar að hafa tvo kjördaga í haust heldur en einn. Ég var áðan staddur hér frammi í stofu og hitti þar tvo bændur úr Borgarfirði. Í þeirra sveit hafði einu sinni verið frestað hreppsnefndarkosningum eitt vor og þar til um haustið, en þegar þá átti að kjósa, gátu margir bændur ekki komið vegna þess, að þeir voru að bjarga fé sínu úr fönn. (SÁÓ: Hvaða ár var þetta?) Mig minnir, að það hafi verið árið 1934 eða 1935. — Þegar slíkt getur hent í Borgarfirði, hverju er þá ekki hægt að búazt við á Norðurlandi? Ég er viss um það, að það mundi líta illa út nú, þegar kosningafyrirkomulaginu hefur verið breytt, ef sveitafólki yrði neitað um tvo kjördaga í haust. Hv. 9. landsk. ætti að haga skoðunum sínum í samræmi við upplýsingar þær, sem fram hafa komið í málinu.

Jafnframt þessu liggur hér fyrir till. frá einum hv. þm. (EE), á þskj. 175, þar sem gert er ráð fyrir, að sú breyt. verði gerð við 6. gr. þessa frv., er hér liggur fyrir, að ekki megi vera meira en 3 kjördeildir í hverjum hreppi.

Eftir kenningu hv. 9. landsk. má sá, er þetta flytur, ekki skipta um skoðun. En ég veit, að hann muni gera það, er hann kemst að raun um, að sums staðar eru 4 kjördeildir í sama hreppi. Ég get nefnt t. d. Sléttuhrepp og Árneshrepp, og sums staðar berjast hrepparnir fyrir að fá 5 kjördeildir, en þeim á að fækka niður í 3 samkv. þessari till. Hún mun fram borin af því að kjördeildirnar eru óvíða fleiri en 3, og ekkert við því að segja, þótt hún sé borin fram, en ég býst við, að hv. flm. taki hana aftur, er þetta er upplýst. Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum um þetta mál.

Ég tel vel farið, að það hefur verið rætt og upplýst hér rólega og virðist ætla að komast í einn viðunandi farveg.