02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

28. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Það var út af orðum hv. 1. þm. Eyf. (BSt). Við þurfum ekki að deila um, hvort ég hafi fallizt á till. hans eða ekki. En ég hygg það þó rangt. Munurinn er fyrst og fremst sá, að eftir hans till. þá var 2. maður á lista útilokaður sem uppbótarþm., ef 1. maðurinn var kjörinn. En við teljum eðlilegra, að hann komist að sem uppbótarþm., ef atkvæðamagn er fyrir hendi.

Í öðru lagi, eftir hans till., þá kom maður, sem kosinn var sem varaþm., ekki til greina sem uppbótarþm., þótt honum væri raðað á landslista. Röðin á landslista hafði ekki tilætluð áhrif. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur gert sér þetta ljóst.

Það var viss kjarni réttur í till. hans, og á hann höfum við fallizt. En hér er þó um efnismun að ræða, ekki aðeins formmun.

Ég skal nú vera stuttorður. — Ég játa, að afstaða atvmrh. var önnur en mín í allshn., um 2 kjördaga, og ég skal játa, að bent hefur verið á þvílíkan annmarka á brtt. allshn., að ég er ekki jafnsannfærður og áður. En ég mun þó greiða atkv. með minni till. Það eru gallar á hvoru tveggja og álitamál. Ég skal þó lýsa yfir, að ef einum flokki þykir kjósendum gert erfitt um að greiða atkvæði, þá tel ég það nokkuð þungt á metunum, því að kosningalögunum má enginn telja misboðið, ef vel á að vera. Og þótt ég hafi ekki sannfærzt af rökum hv. þm. Str., þá munu þau þó borin fram í góðri trú, og eins og ég sagði áðan, þá er það mikils virði, að enginn telji sér misboðið í þessu efni.

Eftir umr. hér í hv. d. býst ég við, að brtt. meiri hl. allshn. verði felldar. Við höfum því borið fram þessa brtt. skriflega við ákvæði til bráðabirgða um, að rétt sé að við næstu kosningar skuli hvergi á landinu hefja talningu atkvæða fyrr en kosningu er alls staðar lokið.