02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

28. mál, kosningar til Alþingis

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Það er nú liðið á fundartímann og æskilegt, að atkvgr. gæti farið fram á þessum fundi. Ég skal vera stuttorður, enda er ágreiningurinn svo lítill, að það er næstum ótrúlegt, að umr. skuli fara fram um það. Hér er ekki að ræða um 1 eða 2 kjördaga, heldur mismunandi aðferðir.

Mér þótti einkennilegt það, sem hv. 9 landsk. (SÁÓ) sagði um skoðanaskipti í Sjálfstfl. Hv. þm. er svo þingvanur, að hann veit, að þetta er algengt fyrirbrigði, að það sé ágreiningur milli deildanna, að önnur d. afgreiði mál einróma, en hin felli það. Þetta er einn af leyndardómum deildaskiptingarinnar í þingi, að við það að ræða málin í tveim d. er eins og önnur d. vakni af dvala og að viðhorf, sem ekki komu fram í fyrri d., komi fram í hinni síðari. Eins er það, að þegar hv. þm. Barð. (GJ) bar fram brtt., þá er hv. 9. landsk. svo þingvanur, að hann veit, að það er algengt, að maður beri fram brtt. við till., sem hann er ekki með, en samþykki hana fremur svo breytta en óbreytta.

Ég vil segja það, að ég álít, að ekkert sjónarmið eigi að vera í þessu máli nema það, að það er skylda þingsins, að greiða eins mikið fyrir því, að kjósendur taki þátt í kosningu, og hægt er, og það var út frá því, sem þingið fór svo langt að lögleiða heima-kosningar, sem voru svo mjög misnotaðar, en þetta er það rétta, til þess að kjósandi fái að neyta þess valds, sem honum er ætlað í þjóðfélaginu. Þetta er hið eina „Suverænitet“ í þjóðfélaginu. Og hvað á þá að sjá um annað en það, að kjósandi fái að nota þetta vald? Þess vegna held ég, að ekki eigi að bægja manni frá að njóta kosningarréttar síns, þó að svo vilji til, að hann liggi í fótbroti eða hitaveiki og komist ekki á kjörstað. En þetta var misbrúkað. Hér í Rvík fóru menn til læknanna, sem gáfu vottorð og kjörstjórnin tók á móti atkvæðaseðlunum, og þetta sýndi, að ekki gat orðið áframhald á þessu. En þetta átti að vera til þess að létta mönnum að neyta kosningarréttar síns, og hér er gengið út frá því sama, og það er vegna þess, að ég get ekkert séð á móti því að skipta hreppum í margar kjördeildir, því að þótt skipt sé í margar kjördeildir, fer kosning fram í réttu formi á kjörstað, og ég álít, að það eigi að vera á valdi þeirra, sem til þekkja, að skipta hreppum í deildir, og ég veit ekki hvers vegna á að takmarka deildirnar við 4. En ég álít, að það eigi að miða skiptinguna við fjölda kjósenda, svo að það minni ekki á heimakosningu.

Um þessa skrifl. brtt., að það megi ekki byrja að telja fyrr en kosningu er lokið, — það hefur verið gert, að byrja dálítið að telja, áður en kosningu er lokið, og ég sé ekkert athugavert við það, þótt byrjað sé að telja á Seyðisfirði, áður en kosningu er lokið. Hví skyldu menn ekki hér mega hrópa húrra fyrir kosningaúrslitunum á Seyðisfirði, og hví skyldu menn ekki mega eftir erfiðan kosningadag njóta spenningsins við að heyra atkvæðatölurnar, ef menn vilja vaka við það? Ég legg ekki mikið upp úr þessu.

Þá er það skriflega brtt. frá hv. 10. landsk. út af bráðabirgðaákvæðinu. Hvers vegna vilja menn ekki, úr því að þessir erfiðleikar eru, breyta þessu rétt og skipta í kjördeildir? Þetta er bara eitthvert þrætuatriði. Annars er ég ekkert á móti þessu. Það er ekki búið að athuga þetta, því að þetta ákvæði er ekki alveg ljóst, en það, sem ég legg áherzlu á, er það, að vilji kjósenda komi fram eins og hægt er, og tek undir það með hv. þm. Barð., að það væri leiðinlegt fyrir þann mann að sitja á þingi, sem þangað væri kosinn fyrir einhverja þvermóðsku Alþ. og að kjósendur geti þess vegna ekki notað kosningarrétt sinn.

Að lokum vil ég segja það, að ég held, að við eigum í þessu efni að fara að óskum þeirra, sem hlut eiga að máli. Það er meinlaust kaupstöðunum, og hvers vegna getum við ekki, úr því að búið er að hliðra til svo, að við megum kjósa eftir kl. 12, hvers vegna má þá ekki hliðra til við þá kjósendur, sem búa við önnur skilyrði, ef þeir óska eftir því?