07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþingi nýtt frv. til stjórnskipunarl., sem hér liggur fyrir til umr. Ég get látið nægja mjög stutta framsögu fyrir þessu máli, vegna þess, að það hefur allra mála mest — og það langbest — verið rætt meðal hv. þm., bæði á lokuðum fundi í sameinuðu Alþingi og í öllum flokkum, allt frá því að Alþ. kom saman nú á þessu sumri.

Eins og kunnugt er, var í lok síðasta Alþingis samþ. svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna milliþinganefnd til þess að gera till. um breyt. á stjórnskipunarl. ríkisins í samræmi við yfirlýstan vilja Alþ. um, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, og skili nefndin áliti nógu snemma til þess, að málið geti fengið afgreiðslu á næsta Alþ. Nefndin kýs sér sjálf formann. Nefndarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Það var ætlan og vilji ríkisstj., að málið yrði borið fram í frumvarpsformi á þessu Alþ. í samræmi við þessa þál. Og að þessu vann þá einnig sú milliþinganefnd, sem í lok síðasta Alþ. var kosin samkv. þessari þál., sem ég las upp. En skömmu áður en þetta þing kom saman, sköpuðust ný viðhorf í þessu mikla máli, sem ég að svo stöddu sé ekki ástæðu til að víkja nánar að. Enda eru þau nýju viðhorf öllum hv. þm. kunn og hafa mikið verið rædd. Eftir að þessi nýju viðhorf höfðu skapast, hætti stjórnarskrárnefndin störfum. En í þess stað var kosin hér innan Alþ. 8 manna nefnd, sem í voru 2 menn úr hverjum þingflokki, ríkisstj. til aðstoðar í þessu máli, til þess að leita nýrra úrræða í samræmi við hið nýja viðhorf. Og málið var mjög rætt af þeirri n. á sameiginlegum fundum ríkisstj. og n. og, eins og ég gat um, á lokuðum fundum í sameinuðu A1þ, og á mörgum flokksfundum. Eftir allar þessar bollaleggingar hefur það orðið niðurstaðan, að ríkisstj. hefur flutt þetta frv., sem hér liggur fyrir. Efni þess er, eins og menn sjá, að aftan við 3. málsgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar bætist ný málsgrein, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar Alþingi samþykkir þá breyt. á stjórnskipulagi Íslands, sem greinir í ályktun þess frá 17. maí 1941, hefur sú samþykkt eins þings gildi sem stjórnskipunarl., er meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu hefur með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt hana.“

Hér er vísað, eins og menn sjá, til þeirra ályktana, sem Alþ. samþykkti l7. maí 1941, og er þar átt við þessar þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið“, og í öðru lagi við þál. um sjálfstæðismálið, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir því:

að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, þar sem Ísland hefur þegar orðið að taka í sinar hendur meðferð allra sinna mála, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandssamningi Íslands og Danmerkur frá 1918,

að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.“

Það eru þessar þál., sem vísað er til í frv. Mergur málsins er sá, að eftir að þetta frv. til stjórnskipunarl. hefur verið samþ. á Alþ., kosningar hafa farið fram og endanleg samþykkt hefur farið fram á aukaþingi, þá verður eftir það, með samþykki eins þings, hægt að setja lýðveldi í stað konungdæmis og gera óhjákvæmilegar breyt. vegna niðurfellingar sambandslagasáttmálans, í stað þess að hafa kosningar á milli þess, sem stjskrbreyt. er samþ. á tveimur þingum í röð. Ríkisstj. telur, að með þessu sé stigið stórt spor og mjög greitt fyrir endanlegri afgreiðslu þessa máls. Og eftir að þetta frv. hefur náð endanlegri staðfestingu á haustþinginu, er það á valdi þess þings eða sérhvers annars þings á eftir að binda fullkominn enda á þetta mál, hvenær sem Alþ. telur, að aðstaða heimili slíkt. Þetta frv. og samþykkt þess er því alveg sama eins og við hefðum gengið frá málinu í fullkomnu formi, síðan látið kosningar fara fram og staðfest það svo á haustþinginu, þannig að Alþ. hefur alveg sama vald síðar til þess að ganga endanlega frá þessu, þegar þar að kemur eftir þeirri aðferð, sem hér er lagt til, að við verði höfð. Að vísu er hér gert ráð fyrir, að fram fari um málið almenn leynileg þjóðaratkvgr., áður en slík samþykkt Alþ. sé tekin gild, og ákvörðun Alþ. í þessu efni nái því aðeins staðfestingu, að a. m. k. helmingur kosningarbærra manna í landinu hafi mætt og goldið jákvæði við þeirri ákvörðun Alþ. Ég viðurkenni, að hér er þá gert ráð fyrir þessari þjóðaratkvgr. í stað þess að efna til kosninga. En ég veit líka, að hv. alþm. munu sammála mér um það, að það er veigamikill munur á kosningum annars vegar og þjóðaratkvgr. um sjálfstæðismálið hins vegar. Kosningar vekja úlfúð og deilur. En það mætti mega vænta þess, að þjóðaratkvgr. um sjálfstæðismálið hefði einmitt gagnstæð áhrif, sameinaði Íslendinga í eina fylkingu, þegar þeir stíga lokasporið að hinu langþráða marki í sjálfstæðisbaráttu sinni.

Mér þykir rétt að taka fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að heimild Alþ. samkv. þessu frv. nær eingöngu til þess að setja lýðveldi í stað konungdæmis og gera óhjákvæmilegar breyt. vegna niðurfellingar sambandslagasáttmálans, en ekki til þess að breyta á neinn hátt annan stjórnskipun landsins, svo sem um kjördæmaskipun né neitt annað, im þess að kosningar fari fram á milli þess, sem slíkar aðrar breyt. væru samþ. Það þykir engin hætta á, að slík breyt. á stjskr., sem hér er gerð, geti skapað fordæmi, vegna þess að aðstæður eru nú algerlega óvenjulegar og konla sjálfsagt aldrei í sama formi fyrir aftur.

Ég vil leyfa mér að láta þessi fáu orð nægja sem framsögu þessa máls, af því að ég veit, að allir hv. þm. hafa nú tekið ákvörðun um það, hvaða afstöðu þeir taki til þessa máls, þótt það sé stórt og merkilegt. Og ég vænti því, að það geti fengið afgreiðslu á hæstv. Alþ. í dag eða í dag og á morgun, ef þurfa þykir. Ég hef ekki talið ástæðu til þess, að málið fari til n. En ef hv. þd. vill það heldur, hef ég ekkert við það að athuga, í trausti þess, að það tefji ekki afgreiðslu málsins. En ég minnist á þann möguleika, ef hv. þm. vilja vísa þessu máli til n., hvort þeir, sem það vilja, geti ekki gengið inn á, að séð verði um, að nokkur tími líði milli 1. og 2. umr., þannig að sú athugun, sem einhverjum hv. þm. kynni að þykja æskilegt, að fram færi um málið, gæti farið fram á þeim tíma.