07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Ég geri nú ráð fyrir, að það muni svo verða, að landsmönnum bregði talsvert í brún, þegar þeir sjá, að frv. til stjórnskipunarl. hefur nú verið lagt fyrir Alþ., og þá með sérstöku tilliti til þess, að þeir hafa átt annars von en þess, sem hér kemur fram í þessu frv., samkv. þeim yfirlýsingum, sem gefnar voru, þegar fram fóru kosningar á þessu sumri.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja mjög sögu þessa máls, það, sem gerzt hefur í þessu máli fyrr og síðar. En ég vil þó aðeins með örfáum orðum minna á það við þessa umr.

Þegar þing það kom saman, sem sleit í vor, höfðu verið gerðar samþykktir um þetta efni, nefnilega 17. maí 1941. Í þeim stóð, að Íslendingar ætluðu að stofna lýðveldi, þegar þeir álitu tímabært, þó ekki síðar en í styrjaldarlok. Í þessari yfirlýsingu Alþ. stóð enn fremur, að ekki þætti heppilegt að ganga endanlega frá þessu, eins og málin stæðu þá, en það yrði gert ekki seinna en að styrjöldinni lokinni.

Hv. þdm. er kunnugt, hvað gerðist á síðasta a1lþ. Þá gengu í samband þrír stjórnmálafl. í landinu um að breyta stjórnskipun landsins. Og um skeið stóð það svo, að því var lýst yfir, að þau samtök væru um það út af fyrir sig. En ekki höfðu langar stundir liðið, áður en því var lýst yfir til viðbótar af hæstv. ríkisstj. og þeim flokkum, sem höfðu bundizt samtökum við Sjálfstfl. um að breyta kjördæmaskipuninni, að stjórnskipunarl. landsins yrði breytt eftir þær kosningar, sem fóru fram í vor, og lýðveldi skyldi verða stofnað á Íslandi. Fram að þeim tíma hafði aldrei verið stigið neitt slíkt skref eða gefin nokkur slík yfirlýsing, án þess að leita vilja hv. alþm., í hvaða flokki, sem þeir voru. Þessari reglu hafði verið fylgt, og ég vissi ekki betur en þing og þjóð væru mjög ánægð með þessar stjórnaraðferðir. En nú brá svo við, að þeir, sem stóðu að hinni stjórnarskrárbreyt., um kjördæmamálið, gáfu yfirlýsingar um aðra stjórnarskrárbreyt., án þess að um þá stjórnarskrárbreyt. væri rætt við alla flokka. Og það er ómögulegt að komast fram hjá því, að ástæðan til þess, að hér var skipt um stjórnaraðferðir, var ekki önnur en sú, að hæstv. forsrh. og þeim flokkum, sem að stjórninni stóðu, var ljóst, að þeir stóðu ákaflega höllum fæti í stjórnmálum landsins, að dómi landsmanna, með því að leggja á hilluna afgreiðslu sjálfstæðismálsins og undirbúning breyt. á stjskr. þar að lútandi, en taka upp baráttu um kjördæmabreyt. Og þessi yfirlýsing um það, að það væri ekki aðeins gengið til kosninga til þess að breyta kjördæmaskipuninni, heldur einnig til þess að stofna lýðveldi, — það er ekki hægt að komast fram hjá því að segja það, og tel ég það vægilega orðað, að þessi yfirlýsing átti að vera nokkurs konar uppbót á málstað þann, sem þeir gengust fyrir, sem því verr mæltist fyrir, eftir því sem hann var betur skýrður. Og ég hygg, að það hafi verið með ráðnum hug, að hér var breytt um stjórnaraðferð og yfirlýsing þessi gefin út, án þess að allir flokkar væru kvaddir til ráðuneytis um það, hvernig fara skyldi með þetta stærsta áhugamál landsmanna. En það hafði ævinlega verið reglan um það, hvernig ætti að koma fram í sjálfstæðismálum þjóðarinnar, að þar kæmi þingið saman sem ein heild. Og ég veit ekki til þess, að það hafi komið fyrir síðan ákveðið var að leysa þetta mál á næstunni, — mér er ekki kunnugt um, að það hafi komið fyrir hjá flokkum á Alþ., að það hafi verið reynt að nota þetta mál flokkum til framdráttar. Enda væri slíkt og er óviðunandi. En það var ekki hægt að líta öðruvísi á en að þetta væri meiningin með þessum stjórnarháttum. Málið var sett þannig fram, að jöfnum höndum og kosningarnar á síðasta vori væru flokkakosningar, þá færu þær einnig fram um breyt. á stjórnarskránni. Og það hafði ekki lengi gengið málafærslan, þangað til að því var komið, að því var haldið fram, að til kosninganna hefði verið stofnað fyrst og fremst með tilliti til stofnunar lýðveldis á Íslandi og Framsfl. væri á móti því. Og sagt var, að kjördæmaskipunin væri afleiðing þessa máls og rétt væri að breyta kjördæmaskipuninni um leið. Þetta vil ég gera athugasemdir við, hvernig þetta mál var tekið upp og hvernig á því var haldið allan þennan tíma.

Nú varð niðurstaðan sú, að þó að því væri haldið fram, að þetta þing væri til þess ætlað að stofna lýðveldi á Íslandi, þá varð niðurstaðan sú, samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, að það verður ekki stofnað lýðveldi í sumar eða byggt á samþykkt Alþ. nú um það efni. Það er ljóst, að Íslandi verður ekki sett lýðveldisstjórnarskrá á þessu þingi, eins og þó var tekið greinilega fram, að um væri kosið í þessum síðustu kosningum.

Og það er annað líka, sem sérstaklega ber að taka til athugunar, sem er annað höfuðatriðið í allri þessari afstöðu, eins og hún liggur fyrir. Menn voru sem sagt beðnir af hálfu þessara flokka að segja til um það, hvort þeir vildu setja lýðveldisstjórnarskrá á þessu þingi og breyta kjördæmaskipuninni. En menn hafa aldrei verið spurðir að því, hvort þeir vildu breyta kjördæmaskipuninni, en fresta að breyta stjórnarskrá landsins að öðru leyti. Og það var tekið svo mikið fram, að menn áttu að láta sér það skiljast, að breyt. á stjórnskipuninni, hvað sjálfstæðismálið snerti, væri aðalatriðið, en kjördæmabreyt. ætti að gera um leið. Og Sjálfstfl. stuðlaði þetta svona.

Nú á svo ekki að ganga frá breyt. á stjórnskipuninni um stofnun lýðveldis. En svo er því bætt ofan á, að þessar breyt. á kjördæmaskipuninni hafi orðið að gera vegna loforða, sem gefin hafi verið. Og menn hafa verið ausnir ókvæðisorðum fyrir það að hafa álitið, að kjördæmabreyt. mætti bíða, og út í það ætla ég ekki að fara, nema bara að segja það, að um þær mundir, sem svo óstinnt var tekið í þetta efni, var mönnum þó ljóst, að ýmsir amamarkar voru á stofnun lýðveldis. Þjóðin hefur verið spurð um það, hvort hún vildi, að á þessu þingi væri stofnað lýðveldi og framkvæmd breyt. á kjördæmaskipuninni í sambandi við það. Nú er stjórnarskránni ekki breytt í þá átt að stofna lýðveldi, en kjördæmaskipuninni breytt og sagt, að það hafi orðið að gera það vegna þess, að því hafi verið lofað. Nú sjá menn, að það er ekki heil brú í þessari afstöðu allri saman. Og ég hygg, að þjóðinni þyki undarlegt, hvernig tekið hefur verið í tillögur framsóknarmanna um að hverfa frá breyt. á stjórnskipunarl. um sinn, þegar það kemur í ljós, að ekki á að afgreiða þetta mál á nokkurn hátt nema annan þáttinn, sem fyrir lá. Læt ég svo þetta nægja um aðdraganda málsins.

Til viðbótar vil ég taka þetta fram um frv. það um breyt. á stjórnskipunarl., sem hér liggur fyrir.

Það er alveg augljóst, að þessi breyt. felur ekki í sér neitt sjálfstæðismál og með henni er ekkert skref stigið í málinu. Þessi breyt. felur eingöngu í sér, hvernig landsmenn ætli sér að fara að því að stofna lýðveldi, þegar þeim þykir tímabært að gera það. Hér er aðeins um form að ræða, og þó að það geti verið nokkurt atriði út af fyrir sig, þá endurtek ég það, að með þessu er ekkert skref stigið í fullveldismálinu, það ætla ég, að öllum landsmönnum sé ljóst, og hæstv. stj. kannske bezt.

Hvað, sem viðhorfinu til hæstv. stj. líður, þá skulum við játa, að það, sem í þessu máli hefur gerzt, getur kennt okkur, að við skulum aldrei framar gera okkur leik að því að draga þetta mál inn í flokkadeilur, eins og gert var við síðustu kosningar með þeim árangri, sem nú liggur fyrir. Við skulum játa, að hér hefur verið beitt aðferðum, sem við getum verið hryggir yfir, og hér hafa skeð þeir atburðir, sem við getum einnig verið hryggir yfir, að þetta þing skuli ekki stíga það spor í fullveldismálinu, sem það ætlaði sér, og þetta getur kennt okkur, að við skulum aldrei framar draga þetta mál inn í flokkadeilur á Íslandi. Ef við gætum þess framvegis, þá má að minnsta kosti segja, að við höfum nokkuð lært.

Ég hef ekki rætt einstök atriði þessa stjórnarskrárfrv., en legg til, að því verði vísað til stjórnarskrárn. þessarar d. Ég tel, að n. geti lokið því fljótt, en eigi að síður finnst mér óhjákvæmilegt að vísa málinu til n., því að þótt það sé rétt hjá hæstv. forsrh., að þetta mál hafi mikið verið rætt milli flokka og þm., þá er það svo, að ég veit a. m. k. um okkur framsóknarmenn, að við höfum ekki haft aðstöðu til að kynna okkur svo nákvæmlega einstök atriði í þeim till., sem fyrir hafa legið og fyrir liggja, að ég telji það ekki heppileg vinnubrögð, að þessu máli sé vísað til n.

Ég skal svo láta þetta nægja, en bið hæstv. forseta að taka þetta sem till. um að vísa málinu til n.