07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Ég undrast þessa ræðu hæstv. forsrh., þó að ég hafi áður heyrt margt af hans munni til að undrast yfir. Ég gat ekki betur skilið en hann segðist hafa lýst yfir því fyrir síðustu kosningar, að fyrir þetta þing yrði lagt frv. til að framkvæma nú þegar í haust fyrirætlanirnar um stofnun lýðveldis og á engu stigi málsins hafi hann afráðið neitt án þess að leitast fyrir um vilja Framsfl., vinna í samráði við hann, eins og sjálfsagt var. Ekkert sýnir betur en þetta, hvernig maður þessi hæstv. forsrh. er, — það, sem hann segir, virðist ekki vera að marka. Það, að hann telur sig vinna í fullu samráði við Framsfl., þýðir, að hann leggur til að afgreiða málið í haust þvert ofan í tillögur Framsfl., sem vildi láta nefnd athuga það rækilega til fullkomnari afgreiðslu síðar. Hann telur, að ekkert skref hafi verið stigið án þess að bera það undir alla flokka, fullkomin eftirgrennslan hafi farið fram um vilja Framsfl. Ekkert af þessu gefur rétta hugmynd um meðferð hans á málinu, meðferð, sem öll hefur miðað að flokkshagnaði hans sjálfs og því að gera á eftir Framsfl. tortryggilegan í málinu, honum væri ekki trúandi til neins. Hver maður, sem kom á kosningafundi í vor, hlaut að taka eftir viðleitni sjálfstæðismanna til að eigna sér sjálfstæðismálið, en tortryggja framsóknarmenn. Svo talar þessi hæstv. ráðh. um það af mikilli vandlætingu, að framsóknarmenn hafi byrjað á að blanda þessu máli saman við kjördæmabreytingarmálið. Hann taldi það fjarstæðu, að kjördæmaskipunarmálið þyrfti nokkurrar afsökunar við, og það sýni, hve ég seilist langt til raka. En hvernig stóð þá á því, að Sjálfstæðisfl. hagaði því þannig, að hann skaut því aftur fyrir sjálfstæðismálið í kosningunum? Hvernig stóð á því, ef þetta mál var ekki nema sjálfsagður og réttmætur hlutur? Við vitum, að hæstv. forsrh. tók þetta mál upp til þess að draga úr óánægjunni með kjördæmamálið og ekki aðeins með málið sjálft, heldur með alla þá óheill, sem því fylgdi, eins og á stóð. Það er ekki hægt annað en ásaka hann fyrir að leiða sjálfstæðismálið úr eðlilegum farvegi til þess eins að reyna að draga úr óánægju með hitt málið og hafa gefið yfirlýsingar í sjálfstæðismálinu, án þess að þær væri að marka, en hins vegar engar yfirlýsingar gefið um það, hvað taka skyldi til bragðs, ef málum kynni svona að fara sem orðið er.

Þá er sú lausn, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi. Hæstv. forsrh. heldur því fram, að hér sé stigið mjög merkilegt spor. En um það vil ég aðeins leyfa mér að vísa til þess, sem hv. þm. Borgf. sagði, en hann lét svo um mælt, að hér væri verið að gera ráðstafanir til þess að greiða fyrir lausn málsins síðar meir, þegar til þess kæmi að stofna lýðveldið, en annars fælist það eitt í frv. að leggja málið á hilluna. Þetta er alveg rétt, en ýmsir telja, að það sé hægt að gera á einfaldari hátt með því að fara aðra leið. — Af því að ég vil ekki lengja umr. að óþörfu, vil ég ljúka máli mínu með því að lýsa yfir því, að Framsfl. stendur í þessu máli á þeim grundvelli, sem markaður var hér á þingi 17. maí 1941, og þykist ég vita, að hið sama eigi við um hina flokkana.