07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég þarf ekki miklu að svara hv. 1. þm. S.-M. en get að mestu látið mér nægja að vísa til fyrri ræðu minnar. Það er öllum vitanlegt, að afstaða framsóknarmanna í þessu máli markast ekki af því, að þeir séu lélegri sjálfstæðismenn en aðrir hv. þm. í þeirri merkingu orðsins, sem hér kemur til greina, heldur hinu, að þeir voru á móti breytingunni á kjördæmaskipuninni og þess vegna á móti kosningum, og af þeirri ástæðu urðu þeir svo að vera á móti því, sem felst í þessu frv. Þetta er alveg tæmandi skýring á afstöðu flokksins, og ætti því hv. 1. þm. S.-M. ekki að vera að leitast við að villa mönnum sýn um hugarfar sitt og flokksins í sjálfstæðismálinu. Af þessari ástæðu gat Framsfl. ekki verið með í afgreiðslu þál. um stjórnarskrárn., en þegar búið var að samþ. hana gegn atkv. framsóknarmanna, kusu þeir menn í n. og vildu taka þátt í störfum hennar einmitt vegna þess, að þeir eru ekki síður skeleggir í sjálfstæðismálinu en aðrir. Ég vissi a. m. k. um afstöðu hv. formanns Framsfl. í málinu, og eins má minna á það, að blað flokksins, „Tíminn“, hefur hvað eftir annað verið að nudda um það, að Sjálfstfl. væri enn að druslast með konung, en telja verður, að slíkt sé mælt fyrir munn flokksins, fyrst ekki hefur komið annað fram. Ég legg áherzlu á það, að yfirleitt hefur ekki verið farið dult með, hver er afstaða Framsfl. í þessu máli, þó að ræða hv. 1. þm. S.-M. gæti gefið í skyn, að flokkurinn væri tregari í málinu en aðrir flokkar. En ég held, að ég megi fullyrða, að hv. formaður flokksins hefur verið einn þeirra, sem harðast hafa viljað fara um lausn þessa máls, og er ekki ástæða til annars en ætla, að flokkurinn hafi staðið á bak við hann í þessum efnum.

Varðandi hjálp þá, er hv. 1. þm. S.-M. sótti til hv. þm. Borgf., er það að segja, að það var gott, að hann skyldi geta leitað skjóls hjá jafngömlum og mætum, þm., en þetta varpar þó ekki neinu nýju ljósi á málið sjálft, heldur miklu fremur skapferli hv. 1. þm. S.-M. sjálfs.