07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Kristjánsson:

Hv. þm. mun vera kunnugt, að ég hefði viljað ganga lengra en gert er í þessu frv. Ég get að sönnu ekki farið langt út í það mál, enda hvílir á því hálfgerð þagnarskylda, eins og mönnum er kunnugt, að því er snertir orsakir þær, er til þess liggja, að ekki var afgreidd fullkomin lýðveldisstjórnarskrá á þessu þingi, eins og undirbúið var með störfum mþn. En í grg. er gefið í skyn, að skapazt hafi ákveðnir örðugleikar, þó að þeir hafi reynzt misjafnlega ægilegir í augum ýmissa hv. þm. Ég er einn þeirra þm., sem litið hafa svo á, eins og hv. þm. Borgf., að fara bæri nokkuð djarflega að málinu, — djarflegar en ýmsir aðrir hafa viljað fara, — en ég vil þó gjarnan benda hv. þm. S.-M. á það, að hann ætti að hreinsa fyrir sínum eigin dyrum, áður en hann fer að bregða öðrum flokkum um óákveðna afstöðu, því að til þessa hefur ekki tekizt að fá flokk hans til þess að sýna ákveðinn lit í því. Þó að ég efist ekki um, að formaður flokksins sé skeleggur í málinu og ég hafi heyrt hann tala um það mjög að mínu skapi, þá er víst, að flokkurinn í heild lítur ekki svo á, að ráða beri því til lykta fyrst um sinn.

Ég er nú kominn í þann vanda að ákveða afstöðu mína til þessa frv., sem gengur skemmra en ég hefði kosið, en ég er vanur því oftast nær að taka skárri kostinn af tveimur misjöfnum, ef bezti kosturinn er ekki fáanlegur, og þess vegna mun ég greiða atkv. með frv.

Hv. 1. þm. S.-M. sór mjög fast fyrir, að það hefði verið borið undir flokk hans, er ákvarðað var að ráða stjórnarskrármálinu til lykta á þessu þingi og hinu næsta. Mér finnst hv. þm. fullákafur í að auglýsa tregðu sína gagnvart þessu máli. En eins og kunnugt er, lá fyrir síðasta þingi þáltill. frá nokkrum framsóknarmönnum, þar sem lagt var til, að kosin yrði 7 manna mþn. til þess að endurskoða rækilega stjórnarskrá ríkisins, og skyldi n. miða starfsemi sína við það, að Ísland sé fullvalda ríki á traustum lýðræðis- og þingræðisgrundvelli. Við sjálfstæðismenn gerðum brtt. við þáltill., og var hún samþ. Bar ekki annað á milli en það, að í okkar till. var gert ráð fyrir 5 manna n. og að n. skilaði áliti svo snemma, að hægt yrði að ráða málinu til lykta á þessu þingi. Mér sýnist því málið liggja ljóst fyrir. Báðir flokkarnir vilja láta gera Ísland að sjálfstæðu lýðstjórnarríki, og þeir lýsa yfir þessu í kosningabaráttunni. Ágreiningurinn er um það eitt, hvort gera eigi þetta strax eða slá því á óákveðinn frest. Það er alrangt, þegar verið er að ásaka sjálfstæðismenn um, að þeir hafi haft málið til þess að gylla sig við kosningar, því að í málinu var aðeins ágreiningur varðandi það, hvenær ætti að framkvæma það. Hin ásökunin, um tregðu sjálfstæðismanna í málinu, er jafnfjarstæð, því að ef hægt er að ásaka nokkurn flokk um tregðu í málinu, þá er það Framsfl. Hann vildi ekki láta málinu í té styrk til þess, að það yrði leyst á þessu þingi. (EystJ: Vildi Sjálfstfl. það?) Já, og hann bauð það, en Framsfl. hafnaði því. Þetta er hægt að sanna skjallega, og ég get sagt það til huggunar hv. þm., að það skal verða birt.

Læt ég svo þetta nægja sem grg. fyrir mínu atkvæði.