07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Mér finnst hlálegt að heyra hæstv. forsrh. gera tilraun til að slá því föstu, að allt í þessu máli sé gert í samræmi við vilja Framsfl., því að hæstv. ráðl. veit vel, að svo er ekki og þetta mál var ekki borið undir Framsfl., frá því þjóðstjórn sleit störfum og þar til fyrir skömmu. Enn fremur sagði hann, að afstaða Framsfl. markaðist nú af kjördæmamálinu, og er slíkt algerður misskilningur. Þegar stjórnarflokkarnar eru búnir að afgr. kjördæmamálið, þá breyta þeir um stefnu í þessu máli frá því, sem ákveðið var 17. maí 1941. Framsfl. ætlaði að vera með í því, sem hinir flokkarnir fyrst lögðu til, en síðan fór samvinnan út um þúfur. Hæstv. forsrh. gerir sér nú miklar áhyggjur út af Framsfl. og telur hann tregari til fylgis þessu máli en Sjálfstfl. og reynir að láta skugga falla á hann, en ég held, að hæstv. ráðh. geti alveg sparað sér þessar áhyggjur. Yfirlýsingar hæstv. forsrh. nú eru í fullu ósamræmi við yfirlýsingar hans í vor, þegar hann sagði, að Framsfl. væri til einskis nýtur, en Sjálfstfl. hefði forustuna í sjálfstæðismálinu, og líkt þessu var komizt að orði í stærsta blaði Sjálfstfl. 5. júlí í sumar. Það átti að fá fólk til að skilja, hvernig Framsfl. væri, — að honum væri ekki treystandi til neins. Sannleikurinn er sá, að sú afgreiðsla, sem þetta mál er að fá nú, varpar engum ljóma yfir núv. hæstv. ríkisstj. og þá, sem með henni standa að þessu frv., og það er engin hætta á, að nokkur skuggi falli á Framsfl. í málinu, þegar hann var ekki með í þessum leik. Hæstv. forsrh. getur þess vegna vel sparað sér þær áhyggjur, sem hann hefur af því. Hv. 3. landsk. talaði um þetta mál og gat þess, að stærsti flokkur þingsins, Framsfl., hefði ekki staðið sig þannig í þessu máli, að honum bæri að gera það að umtalsefni. Það var óhjákvæmilegt fyrir þá, sem hlustuðu á ræðu þessa hv. þm., að skilja hana öðruvísi en þannig, að Sjálfstfl. væri forkólfur málsins, en Framsfl. til einskis nýtur. Mér finnst einkennilegt, að þeir menn, sem ekki þurftu eða vildu aðstoð Framsfl. í málinu, skuli tala svona. Ég skal ekki frekar gera þetta að umtalsefni, en það er upplýst mál, að það var Sjálfstfl., sem kom með till. um, að lýðveldi skyldi ekki stofnað á þessu sumri, og þess vegna er enginn fótur fyrir því, sem mér fannst liggja í orðum hv. 3. landsk., að allt hafi strandað á Framsfl. Ef til vill hefur þetta verið óviljandi hjá þessum hv. þm., en ég fékk ekki skilið ræðu hans á annan hátt.

Það er því í fyllsta máta óviðeigandi að vera með dylgjur um það í garð Framsfl., að hann sé að tregðast við að veita þessu máli framgang og endanlega lausn. Það þarf ekki að ásaka Framsfl. um fylgileysi í þessu máli.