07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég vil aðeins taka það fram, að gefnu tilefni, að það, sem ég hef hér talað um afstöðu Framsfl. í þessu máli, hefur ekki byggzt á neinum einkaviðtölum við formann eða aðra þm. flokksins, heldur á því, sem opinberlega hefur komið frá þeim flokki í blaðagreinum og á öðrum opinberum vettvangi. Ég hef ekki minnzt á Framsfl. í sambandi við þetta mál af neinni umhyggju fyrir honum, heldur af umhyggju fyrir málinu. Lokaorð mín við umr. í útvarpinu, þær er fóru fram fyrir kosningarnar í sumar, voru þau, að það væri gott til þess að vita, að það væri þó eitt mál, sem allir flokkar væru sameinaðir um, sjálfstæðismálið, sem biði úrlausnar. Og það sannar bezt, að ég leit ekki á þetta mál sem mál einhvers sérstaks flokks; heldur mál allra flokka. Framsfl. stóð að því einhuga í stjórnarskrárn., að málið yrði leyst nú í sumar eða haust, eins og bezt sést af því, sem bókað er í fundarbók stjskrn. frá 11. júlí þ. á. Hv. þm. S.-Þ. greinir frá því, að hann muni vera fjarverandi um nokkurn tíma, og segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Vil þó vegna annarra nefndarmanna taka fram þá persónulegu skoðun mína, að ég tel sjálfsagt að ljúka nú í sumar eða haust sambandsslitum við Danmörku á grundvelli yfirlýsingar Alþ. 17. maí 1941, með þeim hætti, að stofnsett verði ísl. þjóðveldi, þar sem forsetinn tekur við starfi konungs, eftir því sem eðli málsins leyfir. Þessa breytingu, vil ég mæla með, að þjóðin framkvæmi annað hvort með vel undirbúnum þjóðfundi eða með stjórnskipunarl., sem fái fyrst endanlegt gildi við almenna atkvgr. allra kjósenda í landinu.

Nokkru síðar lætur hv. þm. Str. á stjskrn.fundi bóka það eftir sér, sem ég skal einnig lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„HermJ lýsti yfir því, að hann væri fyrir sitt leyti samþykkur bókun þeirri, er JJ kom með á fundi n. 11. þ. m., enda kunnugt um hana áður.“

Hér er það sem sagt skýrt tekið fram af tveimur foringjum Framsfl., að þeir voru þessu samþykkir. Ef það var glapræði af öðrum flokkum að ganga djarft til þessa máls, þá er Framsfl. samsekur. En hér er við engan að sakast, því að það eitt var gert, sem rétt var og sjálfsagt. Ég segi það vegna málsins sjálfs, að enginn ágreiningur hafi verið í málinu, en af öðrum og óvæntum viðhorfum gat ekki orðið úr því, að við legðum það frv. fram, er í upphafi var ætlazt til, að lagt yrði fyrir þing það, er nú situr.