07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Jörundur Brynjólfsson:

Hæstv. forsrh. taldi, að ég mætti bezt vita það, að sú stjórnarskrárbreyt., sem gerð yrði nú, gæti ekki öðlazt gildi fyrr en á næsta þingi, í hvaða búningi, sem málið hefði komið fram. Þetta veit ég mæta vel. En það snertir býsna lítið kjarna þess máls, sem við erum að ræða um. Og það er áreiðanlegt, að sú stjórnarskrárbreyt., sem boðuð var á síðasta vori og vikið var að m. a. við kosningarnar, að framkvæmd yrði á þessu þingi, átti að vera allt annars eðlis en þessi stjórnarskrárbreyt., sem fyrir liggur nú, og það var gert ráð fyrir því, að hún öðlaðist gildi á næsta þingi. Mér virtist hæstv. ráðh. telja, að við hlytum að gera einhverja breyt. í þessa átt, þar sem við hefðum talið upphaflega, að það væri óhjákvæmilegt að breyta stjórnarskránni nú öðruvísi en greinir í þessu frv. snertandi undirbúning málsins, því að í þessu frv. er aðeins greiddur vegurinn að því að gera hina reglulegu stjórnarskrárbreyt. En ég vil vona, að hæstv. ráðh. gæti þess, að það, sem við héldum fram í þessu efni, var, að við töldum óframkvæmanlegt að gera nokkra stjórnarskrárbreyt. öðru vísi en svo, að þau atriði yrðu tekin strax með við hina fyrstu stjórnarskrárbreyt., sem boðað var í vor, að breytt yrði nú og á næsta þingi, en að því yrði ekki slegið á frest, þegar farið væri að breyta stjskr. á annað borð, því að þær breyt. væru höfuðatriðin, sem breyta þyrfti, og allt annað væru smámunir hjá þessu. Eigi að síður var hnigið að því ráði hjá hæstv. ríkisstj. og flokkum þeim, sem að henni standa, að breyta stjskr. í öðru atriði. En þá var lofað, að á þessu þingi yrði gerð fullkomin stjórnarskrárbreyt., sem yrði um stofnun lýðveldis, og gengið frá skipun á æðstu stjórn landsins.

Nú liggur þetta frv. fyrir. Menn sjá, í hvaða búningi það er. Það er vissulega allt annað en það, sem rætt var um. Það snertir í raun og veru ekki kjarna þessa máls. Breyt. á æðstu stjórn ríkisins er algerlega ógerð af hálfu þingsins eftir sem áður. En það má segja, að samþykkt þessa frv. greiði götu þeirra breyt. með því að fá umboð fyrir fram hjá þjóðinni til þessara breyt., svo að þingið geti gert þær með þeim skilyrðum einum, að slík breyt. verði lögð undir þjóðaratkvæði og þjóðin eigi þá þess kost að játa eða neita.

Aldrei hefur stjórnarskrá vorri verið breytt með slíkum hætti. Þessu máli hefur verið gert þannig öðruvísi undir höfði en nokkurri annarri stjórnarskrárbreyt., sem gerð hefur verið. En, sem betur fer, er gert ráð fyrir, að stjórnarskrárbreyt. verði framvegis ekki heldur gerð með þessu móti.

Það er ekkert við þessa stjórnarskrárbreyt., sem hér liggur fyrir, unnið annað en þetta, að það er gert mögulegt fyrir hæstv. Alþ. að gera þá breyt., sem það kann að koma sér saman um, og þjóðin hefur ekkert um þá breyt. að segja öðruvísi en að játa eða neita. Og eftir eðli þessa máls, þykir mér þetta býsna óviðfelldinn frágangur á slíku máli sem breyt. á stjórnarskrá ríkisins, svo að ekki sé viðhaft sterkara orð. Upphaf 1. gr. frv. ber þetta líka greinilega með sér. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar Alþingi samþykkir þá breytingu á stjórnskipulagi Íslands, sem greinir í ályktun þess frá 17. maí 1941, hefur sú samþykkt eins þings gildi sem stjórnskipunarlög, er meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu hefur með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt hana.“

En ég er ekki viss um, að mönnum standi á sama, hvernig þessi breyt. verður gerð, hvers konar ákvæði verða sett inn í stjórnarskrána um skipan á æðstu stjórn ríkisins. Og það er eiginlega allt annað fyrir þjóðina, hvort raunverulega er gengið til kosninga um þetta mál og þm. lýsa viðhorfi sínu til þess fyrir kosningar og kjósendur velja þingfulltrúana með tilliti til þess, — það er mikill munur á því, hvort málið liggur þannig fyrir, eða þegar komið er með málið samþykkt af þinginu fram fyrir þjóðina, hefur kannske verið samþ. í þinginu með aðeins meiri hluta, og svo er ekkert hægt fyrir þjóðina annað að gera í málinu en annaðhvort að játa eða neita. Þá er ekki kosið um málið, heldur aðeins leitað atkvgr. um það, og þjóðin á þá ekki annars úrkosta en annaðhvort að samþ. það eða fella. Og það segir sig sjálft, þegar um slíkt mál er að ræða, hvort það þurfa ekki að vera meira en litlir agnúar á afgreiðslu málsins frá Alþ., til þess að þjóðin neyðist til að fella málið. Það má svo að orði kveða, að það gæti verið í svo illum búningi, að meiri hl. þjóðarinnar þætti ekki við hlítandi, svo að ef hún ætti að greiða atkv. um málið eftir venjulegum reglum um stjórnarskrárbreyt., mundi hún hiklaust kjósa þingmenn eftir því, hvernig hún liti á málið og vildi breyta búningi þess, þar sem hún hins vegar með þessu móti, sem hér er gert ráð fyrir, hlýtur að greiða atkvæði með því.

Hér er um mál að ræða nokkurs annars eðlis en venjuleg dægurmál. Hér er um frelsi þjóðarinnar að ræða og framtíðarstjórnskipan hennar og öryggi í æðstu málum hennar. Þetta tvennt er svo gerólíkt, sem mest má verða.

Það þurfti sannarlega ekki að minna mig á það, að þessi breyt. öðlaðist ekki gildi fyrr en á næsta þingi. Og þó að gefin hafi verið fyrirheit um fullkomna lýðveldisstjórnarskrá, þá er það vitað, eins og hæstv. forsrh. hefur játað, að þetta, sem hér liggur fyrir, er allt annað mál og á lítið skylt við það. Það er, eins og ég hef lýst, borið fram á mjög sérkennilegan hátt og miður viðkunnanlegan. Og það er enginn kominn til að segja, hvað kann að verða dregið inn í þetta. Það er ekki eins og sú ályktun, sem vitnað er til í frv., afmarki svo þröngt þá skipan, sem kann að verða á þeirri stjórn. Og í frv. er ekkert gert annað en að vitna til þessarar ályktunar, sem lítið segir annað en að það skuli gert, sem ályktunin fjallar um. Þess vegna getur maður ekkert fyrirfram vitað um það, í hvaða búningi þetta kann að verða. Það er því sitt hvað að koma nú með þetta mál fram svona, eins og hér er gert, eða eins og við framsóknarmenn héldum fram, að gera ætti, að þetta mál skyldi taka í upphafi, strax er stjórnarskránni yrði breytt. Það er vissulega allt annað mál. Kjarna málsins er nú með samþykki þessa frv. eftir sem áður slegið á frest.

Hæstv. forsrh. sagði, eins og rétt er, að við framsóknarmenn hefðum staðið með málinu og fulltrúar Framsfl. í þeirri n., sem málið hafði til undirbúnings, hefðu lýst því yfir, að þeir vildu fylgja því. Það veit ég vel, og á því stendur ekki. Þar látum við málefnið fullkomlega njóta þess, hvers eðlis það er. Og þó að við séum óánægðir með það, hvernig það er tekið upp, þá, eftir að búið er að taka það upp, dettur okkur ekki í hug annað en að greiða götu þess til fullnaðarúrslita, eftir því sem við frekast getum. Það er þessi samþykkt af okkar hálfu, sem fyrir liggur. Og það er allt annað mál heldur en hitt, að við værum samþykkir því að taka það upp í fyrstu, eins og gert var. Þessi þáttur stjórnarskrárinnar var ekki tekinn upp í fyrstu til endurskoðunar, eins og við vildum láta gera, heldur minni atriði, sem eru dægurmál, sem eru hreinasti hégómi, borið saman við þetta mál. Það hefur sem sé verið farið alveg öfugt að hlutunum í þessu máli. Það hefur aldrei, eins og hæstv. forsrh. sagði, verið ágreiningur um stofnun lýðveldis á Íslandi. En það á ekkert skylt við þessi vinnubrögð, sem höfð eru nú á málinu. Og mér finnst hæstv. forsrh. gera of lítið sjálfur úr sinum eigin orðum og yfirlýsingum, sem hann hefur við haft í þessu máli, ef hann ætlast til þess, að þjóðin og hv. þm., þó að í andstöðuflokki séu, leggi mjög lítið upp úr því. Það gera menn vissulega ekki. Menn ætlast fyrst og fremst til þess, að slíkar yfirlýsingar séu sagðar í fullri einlægni og af ráðnum hug og með þeirri vissu, að við þær yfirlýsingar verði staðið og á þeim tíma, sem um hefur verið talað. Nú vil ég ekki ásaka hæstv. ráðh. um það, þó að það kunni að bregðast. Og þó að honum þyki það á skorta hjá mér, að ég tali ekki nógu ljóst um einstök atriði, þá verður hann að virða mér til vorkunnar, að ég get ekki farið greinilega út í einstök atriði, og má hann gerst vita, að þar um er ég og fleiri hv. þm. nokkuð bundnir, að því er snertir þetta mál. Og ég hygg, að það mundi ekki horfa til góðs fyrir okkur að draga slíkt inn í umr. eða verða til neins ávinnings fyrir þjóðina sjálfa.

Ég hirði svo ekki að fjölyrða frekar um þetta. Mér skilst, að búið sé að semja um afgreiðslu þessa máls í einhverri mynd, en ég held, að það væri vel þess vert að ganga að einhverju leyti betur frá 1. gr. frv., svo að hún sé ekki alveg eins ótakmörkuð. Það væri hægt að setja eitthvert frekara ákvæði, sem snertir efnishlið málsins, í 1. gr., því að, svo framarlega sem hægt er að heimfæra undir hana, að hún snerti æðstu stjórn okkar mála, þá eru þar engin takmörk sett.