07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Kristjánsson:

Það er aðeins stutt aths., sem ég þarf að gera.

Hv. 1. þm. Árn. sagði hér í fyrri ræðu sinni, að hann vísaði til föðurhúsanna þeim ummælum mínum, að Framsfl. hefði sýnt tregðu í þessu stjórnarskrármáli. Ég ætla ekki að deila við þann góða mann um þetta, en legg það bara undir dóm þeirra, sem orð okkar heyra, því að fyrir þessu liggja glöggar sannanir, og hef ég hér vitnað í eina. Ég hef lesið hér upp þáltill. nokkurra framsóknarmanna, þar á meðal hans, frá síðasta þingi, þar sem þeir, að ég ætla, í umboði flokksins, flytja þá till., sem ég las upp, að skipa 5 manna n. til þess að endurskoða rækilega stjórnarskrá ríkisins. Þetta átti að vera mþn., og átti ekki að setja henni nein takmörk um, hvenær hún skilaði áliti sínu, það gat verið eftir eitt ár, og það gat verið eftir 10 ár, allt eftir atvikum. Nokkrir sjálfstæðismenn, þar á meðal ég, fluttum brtt., sem ég gat líka um, að 5 manna mþn. skyldi skipuð til að vinna þetta sama verk, og skyldi hún skila áliti sínu nógu snemma til þess, að málið gæti fengizt allt afgr. fyrir næsta þing. Nú bar ekki á milli nema tímatakmarkið. Við vildum láta undirbúa málið það fljótt, að því yrði endanlega lokið fyrir næsta þing, sem er þetta þing, svo að þá væri hægt að samþ. lýðveldisstjórnarskrána, en framsóknarmenn, sem hafa þar sjálfsagt ekki haft á bak við sig vilja allra flokksbræðra sinna, en þó meiri hl., vildu, að það væri alveg óbundið, hvenær n. skilaði áliti og hvenær málið fengi fullnaðarsamþykki. Ég ætla, að allir muni skilja, að þeir, sem vilja fá málið afgr. fyrir ákveðinn tíma, hafa verið hvatamenn að málinu, en hinir a. m. k. tregari, sem vildu ekkert ákveða um, hvað lengi afgreiðsla málsins mætti dragast. Ég sé svo ekki ástæðu til að deila frekar um þetta: Þetta virðist liggja glöggt fyrir, þó að hv. 1. þm. Árn. hafi á þessu annan skilning, og undrar mig það mjög, af því að hann er vanur að geta brotið til mergjar jafneinfalt mál og þetta.

Hv. 1. þm. S.-M. lagði enn áherzlu á, að Sjálfstfl. hefði haft þetta mál sér til áróðurs við síðustu kosningar. Ég hef ekki orðið var við þetta, en mér sagði annar frambjóðandi Sjálfstfl. í hans kjördæmi, að þeir hefðu alls ekki minnzt á þetta mál á kosningafundunum þar. Það er því bersýnilegt, að hann hefur þetta eftir annarra sögusögn, því að í hans kjördæmi hefur þetta alls ekki komið fram. Ég held, að þessi hv. þm. sé hér ekki viðstaddur, en ég þarf þó að svara öðru atriði í ræðu hans. Hann segir, að Sjálfstfl. hafi ekki sent Framsfl. tilmæli um að vera með því að samþ. lýðveldisstjórnarskrá á þessu þingi. Mig undrar mjög, að hv. þm. skuli segja slíkt, því að þingfl. sjálfstæðismanna sendi hv. þm. Str. tilmæli um, að Framsfl. stæði að því með öðrum þingfl., að á þessu þingi yrði samþ. lýðveldisstjórnarskrá, og bað um, að ef flokkurinn vildi fara einhverja aðra leið, þá styngi hann upp á því, en flokkurinn vildi hvorki samþ. þessa leið né stinga upp á öðru. Ég hef heyrt og veit, að það hlýtur svo að vera, að einhverjir í þingfl. framsóknarmanna hafi verið á öðru máli, en þetta hafi orðið ofan á. Ég vildi ekki láta hjá líða að leiðrétta þetta, því að ég vildi ekki láta standa ómótmælta slíka staðhæfingu, sem er alveg ósönn.

Það var upphaflega ekkert fleira, sem ég ætlaði að segja, þó að ég gæti sagt margt fleira til stuðnings því, að Framsfl. hefur verið seinlátari í þessu máli en við sjálfstæðismenn, en við höfum aldrei ætlað að nota það sem deiluatriði milli flokka. En undarlegt þykir mér að heyra, þegar hv. 2. þm. Skagf. setur það aðallega út á þetta mál, sem hér liggur fyrir, að það sé of auðvelt að fá það samþ. með þjóðaratkvæðagr. Mér skilst, að hann ætli sér að vera á móti þessu stjórnarskrárfrv. En það er þó ljóst, að það er spor í rétta átt, en má vera, að hann hafi aðra skoðun á því. En það undrar mig mjög, að hann skuli sérstaklega setja það út á frv., að það sé gert of auðvelt að fá það samþ. með þjóðaratkvæðagreiðslu.