07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. 3. landsk. þm. veik að því, að við framsóknarmenn hefðum verið eitthvað tregari í þessu máli heldur en sjálfstæðismenn, að við skyldum ekki fallast á þeirra leið í málinu, og sagði, að eftir till. framsóknarmanna um skipun n. til að athuga málið hefði ekki verið til tekið, hvenær störfum þeirrar n. skyldi verða lokið. En þar var svo til tekið, að fulltrúar annarra flokka ættu þar einnig sæti, svo að það hefði verið hægt að hafa samtök um að hafa áhrif á að hraða þessu máli í n., ef þeim flokkum hefði þótt í frammi haft seinlæti í málinu.

En ég vil hins vegar spyrja hv. 3. landsk. þm.: Hvar ber þetta frv. það með sér, að það eigi að flýta þessum störfum? Hv. 3. landsk. þm. sagði, að ekkert hefði verið tekið fram um það í till. okkar, hvort það ætti að vera eftir eitt ár, sem n. hefði lokið störfum, eða hvort það hefði kannske átt að vera eftir 10 ár, að n. hefði gert það. En hvar stendur það í þessu frv., hvenær þetta skuli vera gert? Þar stendur ekkert annað um tímann en að þegar Alþ. samþ. þá breyt. á stjórnarskrá Íslands o. s. frv. Mér finnst síður en svo, að með þessu sé nokkuð ákvarðað um það, hvenær þetta sé gert. Og það skil ég mæta vel, að ekki sé auðvelt að gera nú. En þá eiga menn ekki heldur að vera með svigurmæli út af sama máli um það, að í till. okkar framsóknarmanna hafi ekkert staðið um það, hvenær þetta skuli gert. En hann og flokkur hans hafa til tekið það, að þetta skuli gert á þessu þingi. Nú ætlar það að bregðast. Það færi ég ekki þeim til tekna. Þeir hafa verið full skjótráðir í því að fullyrða um þetta. Ég efast ekki um vilja hv. 3. landsk. þm. í þessu máli. Og mér finnst, að við getum alveg sparað okkur það að gruna hvor annan um nokkra græsku í þessu máli. Þess vegna fer ég ekki lengra út í það.

En annað atriði í ræðu hans vil ég minnast á, vegna þess að það hlýtur að valda misskilningi, ef það er ekki leiðrétt. Hann telur, að okkur framsóknarmönnum hafi staðið til boða að samþ. fullkomna stjórnarskrá um lýðveldi og hún hefði sitt fulla gildi. Þetta er fjarri öllu lagi. Það hafa að vísu komið fram uppástungur um það að undirbúa þetta mál, en svo ætti að ganga frá formshlið málsins, þegar stjskr. öðlaðist gildi. En sá böggull fylgdi skammrifi, að það átti að slá þessu máli á frest um ótiltekinn tíma. Þegar Alþ. sæi sér fært, þá skyldi það öðlast gildi. En ég vil spyrja: Hvað stóðum við þá nær afgreiðslu málsins? Er nú víst, að okkur beri svo mikið á milli í þessu efni? Ég kann þess vegna illa við, að hv. 3. landsk. þm. sé á þessum grundvelli að reyna í ummælum sínum að saka okkur framsóknarmenn um það, að við séum eitthvað tregari í þessu máli heldur en sjálfstæðismenn. Það er síður en svo, að ég óski þess. Þegar ákvörðun verður tekin um þetta mál, og ef þá reynir á karlmennsku, þá get ég búizt við, að aðrir verði engu síður og jafnvel fullt svo vambsíðir um það að stíga það spor sem við framsóknarmenn.

Ég vil svo aðeins segja það við hæstv. forsrh., út af því, sem hann sagði síðast, að mér þykir, að á skammri stundu hafi skipazt veður í lofti. Fyrir stuttu taldi hann, að við framsóknarmenn mundum ekki vera ófúsir á að gera það, sem gagnlegt væri í þessu máli. En nú segir hann, að það lýsi ekki öðru en tregðu hjá okkur, að við gerum þessar aths. við þetta mál og við ætlum að tregðast við að gera eitthvað í þessu máli. Þetta þykir mér illa mælt og ómaklega. Frá okkar hálfu liggur ekkert fyrir annað í því efni en að við munum fylgja málinu fram til sigurs eftir þeim leiðum, sem vænlegastar eru og þjóðinni megi að gagni verða. Þess vegna vil ég nú vona, að það verði ekki endurtekin þrásinnis þau ummæli um það, að menn muni ekki gjarnan vilja koma þessu máli sem fyrst í höfn.