07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. sagði, að ef þetta frv. væri samþ., þá væri mögulegt að ganga til fulls frá lýðveldismyndun á næsta þingi. En þetta er ekki alveg rétt, því að til þess, að þær samþykktir nái gildi, þá er eftir að láta fara fram þjóðaratkvgr. um málið. Það getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. og hennar flokkur ætli nú, eftir að horfið hefur verið frá því, sem yfir var lýst af ríkisstj. fyrir síðustu kosningar um afgreiðslu þessa máls, að fitja upp á því aftur fyrir haustkosningarnar og segja þjóðinni, að undir forustu Sjálfstfl. muni málið verða endanlega afgreitt á því þingi, sem væntanlega kemur saman fyrri partinn í nóvember í haust. En þá verður það náttúrlega að fylgja með, að þjóðin, í viðbót við það að fara út í almennar alþingiskosningar um veturnætur, verði hún einnig að fara út í slíka atkvgr. í skammdeginu.

Af þessu og öðru, sem fram hefur komið, ætti mönnum að vera ljóst, að hér er á allt annan veg á málinu haldið en yfirlýst var af hæstv. ríkisstj., að verða mundi á þessu þingi.

Út af aths. hæstv. forsrh. um það, sem ég sagði um framkomu hans og ríkisstj. í þessu máli, vil ég benda á, að það er vitanlega með ýmsu móti, sem stjórnarskipti verða. Stundum verða stjórnarskipti fyrir það, að ríkisstj. hefur misst traust meiri hl. þings og sá meiri hl. hefur sagt henni að víkja, ef möguleiki hefur verið til þess að mynda þingræðisstjórn í staðinn. Svo hefur líka stundum komið fyrir, hér á landi og annars staðar, að stjórnin hefur sjálf fundið hvöt hjá sér til þess að víkja úr sæti, ef hún hefur ekki konlið fram vilja sínum í málum, sem hún hefur talið mjög mikils virði. Og það var aðeins það, sem ég benti á áðan í ræðu minni, að mér virtist það vera allmikill skortur á sjálfsvirðingu hjá hæstv. ríkisstj. í þessu máli og framkoma hennar benti til þess, að hún liti ekki mjög stórt á þetta mál, sem allur þorri landsmanna hefur þó talið eitt af þeim stærstu málum, sem þjóðin hefur haft um að fjalla.