07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Ég get verið fáorður, því að ég hef gert grein fyrir þessu máli í fyrri ræðu minni og þarf aðeins að leiðrétta fáein atriði.

Hv. þm. Seyðf. taldi þetta mjög þarft frv., þar eð það tryggði, að við gætum á stjórnskipulegan hátt tekið fullt frelsi í okkar hendur. En ég hef áður sýnt fram á, að þetta gætum við gert strax í dag, ef Alþ. hirti um það, eins og gert hefur verið áður, og væri munurinn aðeins sá, að við gerðum það þá aðeins „að svo stöddu“. En sú athöfn gæti vitanlega eins haft varanlegt gildi. Það þarf enga nýja samþykkt í þessu efni, og því er frv. algerlega gagnslaust.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að betra hefði verið fyrir hæstv. forsrh. og mig að velja eitthvert annað mál til að hnútabítast um á þennan óviðeigandi hátt, eins og hann komst að orði. En ég tel, að eins og þetta mál er fram borið, eigi þjóðin heimtingu á, að það sé krufið til mergjar. Og þegar málið er þannig fram borið, að það er auglýst á kosningadaginn með forsíðumynd í Morgunblaðinu, að Sjálfstfl. ætli að stofna lýðveldi, og sýnt, hvernig hann tekur frelsið á Þingvöllum landinu til handa, — þegar lýst er yfir því skýrt og skorinort í kosningabaráttunni, að stefnan sé sú að taka sér fullkomið frelsi, og þegar kosið er beinlínis um þetta, en síðan fallið frá málinu, eins og hér er gert, þá þekki ég ekkert orð, sem betur eigi við um slíkar aðfarir en svik. Það er búið að senda Danakonungi tilkynningu um, að setja eigi hann af, það er búið að auglýsa þetta fyrir öllum heimi, þrír fimmtu hlutar þingsins eru búnir að lýsa yfir því, að þetta eigi að gera, og menn tala um, að þetta sé merkasta þing, sem haldið hefur verið á Íslandi, af því að það eigi að leysa sjálfstæðismálið. Og þegar á daginn kemur atriði, sem allir játa, að sjá mátti fyrir, þá er lekið niðúr og hætt við allt saman. Þetta er þjóðarsmán, og það væri að bregðast málstað þjóðarinnar að finna ekki að því. Ég hef að vísu ekkert á móti því, að gefin sé út opinber skýrsla um þetta mál og sögu þess, en ég tek það fram, að ég tel hæstv. ríkisstj. ekki treystandi til þess, heldur utanrmn.

Hv. þm. sagði, að samkomulag hefði verið um að breyta ekki kosningal. fyrr en breytt væri þessu atriði stjórnarskrárinnar. Þetta er ekki rétt, um það var ekkert samkomulag, en hitt er satt, að almennt mun hafa verið litið svo á, að þetta tvennt yrði látið fylgjast að, og flokkar þeir, sem báru fram kjördæmaskipunarmálið, treystust ekki til að gera það án þess að taka sjálfstæðismálið með um leið.

Það er rétt hjá hv. þm. Seyðf., að kosningum um kjördæmamálið er lokið, en hitt er ekki síður rétt, að sjálfstæðismálið var aðalmálið í kosningunum, og ég man t. d., að á tveimur kosningafundum, þar sem ég var staddur, bar þetta mál hæst. Var einna helzt litið svo, á að kjördæmamálið væri borið fram til þess að fá réttláta kjördæmaskipun í hinu nýja lýðveldi.

Hv. þm. spurði, hvort ég vildi nú fara þá leið, sem boðuð var í vor. Ég skal í því sambandi taka það fram, að þar sem þrír fimmtu hlutar þingsins höfðu bundizt samtökum um að leysa málið, og þar sem búið var að tilkynna Danakonungi og erlendum þjóðum, að það ætti að leysa, var ég ekki í neinum vafa um það, hvernig mér bæri að haga mér í málinu. Það var því óþarfi fyrir hæstv. forsrh. að lesa upp úr fundargerðabók ummæli mín, sem eiga raunar við allt amað atriði. Ég hafði gert það upp við mig, eins og komið var, að greiða hiklaust atkv. með málinu, en eins og kunnugt er, hefur Framsfl. ekki verið gert neitt tilboð um að leysa málið á þessu þingi og hinu næsta, eins og lofað var í kosningunum. En þar sem búið var að tilkynna það öllum heimi, að málið ætti að leysa, þá var það fjærst skapferli mínu að fara að snúa til baka með það.

Hæstv. forsrh. og fleiri töluðu hér um það, að ég hefði ekki verið á móti þessari leið í 8 manna n. Þar var raunar talað um ýmsar leiðir, og lagði ég yfirleitt lítt til þeirra mála. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði verið eins og að klappa á stein að ætla sér að fá svör hjá mér varðandi málið. En ég lýsti yfir því á fyrsta fundi n., að ég teldi ekki vera til nema tvær leiðir í málinu, að halda málinu til streitu eða lýsa yfir því, að ekki væri hægt að halda því áfram vegna andstöðu erlendis. Millileið væri hér engin til, og það gæti aðeins orðið þjóðinni til blekkingar og sársauka, ef það ráð yrði tekið að fara einhverjar slíkar millileiðir. Það skýtur því dálítið skökku við, þegar hv. þm. Seyðf. er að spyrja, hvað Framsfl. vilji gera í málinu, sá flokkur, sem reynt var í vor að setja utan gátta.

Ég skal geta þess, að ég notaði þetta mál aldrei sem uppístöðu í kosningabaráttunni, en ég hef beitt mér gegn því ásamt öðrum framsóknarmönnum, að það væri tekið upp á þessum grundvelli. Hins vegar lýsti ég yfir því eftir kosningarnar, að ég mundi ekki standa í vegi fyrir málinu, þótt ég væri óánægður með, hvernig til þess væri stofnað. Mér finnst því alveg einstök framkoma hæstv. forsrh., er hann stendur hér upp og vitnar í það, að ég hafi sagzt ekki ætla að vera á móti málinu, og bætir því við, að ég hafi því svikið ekki síður en hann. Nei, ég gaf vissulega engin loforð viðvíkjandi málinu fyrir kosningarnar. En ég hef talið, að þeir, sem óánægðir eru með málið, eigi samt að standa með því sem Íslendingar, þegar sýnt er, að meiri hl. þings er því fylgjandi. Hitt er svo annað mál, þótt það sé gagnrýnt, hvernig til málsins er stofnað.

Það má segja, að ræða hæstv. forsrh. hafi verið sú kóróna á málið, sem var því samboðin. Hann sagði, að þm. Str. hlakkaði eins og ránfugl yfir því, að svona væri komið í sjálfstæðismálinu. Hann sagði líka, að þm. Str. væri allra manna grautlinastur í sjálfstæðismálinu. Ég ætla ekki að fara að bera saman sjálfstæðisvilja minn og annarra. Ég hef ekki tíðkað það að auglýsa tilfinningar mínar á götum og gatnamótum í því máli fremur en öðrum, en ef farið væri út í getsakir í þessum efnum, held ég, að hæstv. forsrh. stæði þar öllu hallari fæti en flestir aðrir, og ég afþakka algerlega, að hann tali til mín á þennan hátt.

Hæstv. ráðh. sagði líka annað, sem ég veit ekki, hvort allir hv. þm. hafa tekið eftir. Hann sagði, að ef nokkur maður ætti sök á erlendri íhlutun um þetta mál, þá væri það ég. Hverju sætir það, að maður í stöðu forsrh. skuli leyfa sér að bera slíkt fram, án þess að reyna að færa fram snefil af rökum því til stuðnings? Hann sagði, að ég hefði gengið manna lengst í því að taka til greina vilja erlendra aðila. Hvaða rök hefur hann fyrir þessu? Hann kvaðst ekki hafa tekið tilmæli brezku stjórnarinnar varðandi sjálfstæðismálið til greina, en sagði, að vel mætti vera, að ég hefði gert það. Það er nú á allra vitorði, að þegar við tókum ákvörðun um málið á Alþ., þá höfðum við hliðsjón af þessum tilmælum. En eins víst er, að málið hefði verið leyst á sama hátt og varð, þó að þessi tilmæli hefðu alls ekki komið fram. Aftur á móti eru nú sams konar tilmæli ein saman látin valda því, að hætt er við málið, og hefur hæstv. forsrh. forgöngu um það. Hver trúir því, að sá hinn sami maður hafi verið allra manna harðastur, þegar tilmælin komu frá Bretum? Þá var hæstv. ráðh. með getsakir um, að ég hefði farið á bak við sig með eitt og annað, meðan við vorum báðir í stj. Ég vek sérstaklega athygli á þessu, til þess að þeir, sem síðar lesa þingtíðindin, megi sjá það.

Þá eru aðeins tvö atriði enn. Því er haldið fram, að með frv. opnist möguleikar til að leysa málið að fullu á haustþinginu. Á nú að fara að byrja aftur á því að lofa að leysa málið á næsta þingi?

En nú á að láta skína í málið með því að lofa að framkvæma það á haustþinginu, sem nú hefur farizt fyrir. En sannleikurinn er sá, að það er verið að búa til úr þessu gervimál og utan um það gerviljós, m. ö. o., það er verið að blekkja þjóðina, og það er hættulegt. Ég vil með nokkrum orðum sýna fram á, hve fjarstæðukennd þessi aðferð er, sem hér á að nota. Eftir styrjöldina rekur að því, að taka verður stjórnarskrána og breyta henni aftur. Þá verður þing kallað saman til að ganga endanlega frá stjskr. og taka upp þær breyt., sem leiðir af því, að konungsvaldið verður flutt inn í landið og fengið í hendur forseta. Um þetta þarf svo að fara fram þjóðaratkvgr. eða eitthvað þess háttar, og líklegt er, að á þessu þingi eftir stríðið verði skipuð önnur n. í málið, sem undirbúi annað frv. Þetta, sem er verið að gera nú, er þess vegna ekkert nema kák, — Samþykktirnar 17. maí 1941 eru endanlegar samþykktir. Við höfum nú beðið í 3 ár og gátum alveg eins beðið eitthvað lengur, í stað þess að koma fram með þetta frv., sem hér liggur fyrir. — Það er ekki annað sýnilegt en þetta mál sé aðeins borið fram nú sem yfirbreiðsla, vegna þess að hæstv. ríkisstj. gat ekki haldið þau loforð, sem gefin voru af henni í kosningunum í vor. Í málinu eru óheilindi, og það er ekkert annað en gervimál, búið til til þess að blekkja þjóðina, og það er skaðlegt. En von mín er sú, að hulan sé svo þunn, að þjóðin sjái í gegnum hana.