07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Gísli Jónsson:

Ég vildi svara tveimur fyrirspurnum hv. 1. þm. Eyf. Fyrst er það, hvenær Framsfl. var boðin samvinna um það að koma á lýðveldi á Íslandi. Þessari þd. og hv. 1. þm. Eyf. er það ljóst, að þegar í þingbyrjun var Framsfl. boðin samvinna um öll mál, forsetakosningar og annað, sem máli skipti. Honum hlýtur að vera ljóst, að Framsfl. var boðin samvinna um lausn þessa máls í því formi, sem 8 manna nefndin taldi þá hættulaust. Við því boði hefði þá átt að koma gagntilboð frá Framsóknarflokknum, en kom aldrei.

Um afstöðu hv. þm. Borgf. verður að taka fram, að hún markast af því, að hann vildi ekki sjálfur láta nokkurn hlut undan því, sem kalla má afskipti erlends valds. Þetta er manndómur, sem þeir ættu að meta einhvers, sem telja engar fórnir of stórar fyrir þetta mál.

Afstaða framsóknarmanna í Nd. í umr. í gær var mjög minnisverð. Hv. 2. þm. Skagf. vildi ekki láta samþykkja sambandsslitin við Dani fyrr en 80–100% kjósenda hefðu greitt þeim atkvæði. Þetta sýndi hug hans til þessa máls, og hann er allur annar en hugur hv. þm. Borgf. Uppistaðan í ræðu hv. 1. þm. Árn. var ekki önnur en sú, að Framsfl. hefði verið skákað til hliðar, og þá komst ekki annað að en þessi sára gremja yfir að hafa orðið undir í kjördæmamálinu. Afstaða hv. þm. V.-Húnv. var helzt sú að brýna stjórnina á því, að þar sem hún hefði ekki fylgi allra þm. í þessu máli, hefði hún orðið undir í því og ætti þess vegna að fara frá völdum. Ég held, að hver heilvita maður ætti að geta séð mun á þessu og afstöðu hv. þm. Borgf. Ef allir framsóknarmenn hefðu setið hjá atkvgr. af sömu ástæðum og hann, hefðum við fyrir bragðið ekki staðið veikar, heldur sterkar að vígi erlendis, því að honum þótti frv. einungis fara of skammt, og það er reginmunur.