07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég vil ekki eiga þátt í, að málið tefjist, og vona, að það geti farið til n. nú í matartímanum. Þó að ýmislegt hafi komið fram í málinu, síðan ég talaði seinast, fyrir hádegið, get ég yfirleitt látið nægja að vísa til þess, sem ég hef þegar sagt, einkum við 1. umr. í hv. Nd. í gær. Um margt get ég vísað til hinnar óvenjulega mögnuðu og rökstuddu ræðu hv. 5. þm. Reykv. og get gert hana að mínum orðum, þó að þar kæmi fram ýmislegt, sem hjá honum varð skýrara en hjá mér hefði orðið, sakir þess að hann stendur föstum fótum á grundvelli stjórnlagafræðinnar. Enda er það sannast sagna, að allt frá því í apríl 1940 eða raunar fyrr hefur hann samið flestar þeirra yfirlýsinga um fullveldismál vor, sem gerðar hafa verið, og einnig samdi hann þann sáttmála, sem gerður var milli okkar og Bandaríkjaforseta og átti kannske mestan þáttinn í, hvernig efni hans var sett fram.

Langt mál þarf ekki um, hvað breytzt hafði, frá því að gerð var samþykktin 17. maí 1941, þangað til við vorum almennt farnir að gera ráð fyrir, að okkur væri frjálst að gera í fullveldismálum það, sem við vildum. Sú breyt., sem varð í júní–júlí 1942, virtist skapa okkur þar hagstæða aðstöðu, — við töldum allar leiðir færar. Um það, hví þá var ekki látið kné fylgja kviði, og um hin nýju viðhorf líðandi stundar tel ég ekki heppilegt fyrir málefnið að fjölyrða eða skýra að svo stöddu. En um eitt deiluefnið vildi ég láta falla nokkur orð.

Hv. formaður Framsfl. og hv. þm. Str. hafa rætt um, hver ætti hugmyndina, sem liggur til grundvallar þessu frv. Hv. 6. þm. Reykv. segir, að Hermann Jónasson, hv. þm. Str. eigi hana. Ég held, að það sé ekki rétt, en skil, hví hv. 6. þm. Reykv. hefur ástæðu til að álíta þetta. Hann var ekki á nefndarfundi, þegar till. var fyrst varpað fram, heldur á fundi sáttanefndar í vinnudeilum, og þegar Hermann Jónasson bar till. upp á næsta fundi, leit svo út, sem hún væri hans sjálfs. Þetta er allur kjarni þessa máls.

Að lokum vil ég segja: Ég hef sætt ámæli frá hv. þm. Str. í ræðum hans í dag, en breyting hefur orðið á framkomu hans við umr. Ég hefði kosið og mikið viljað til þess gefa, að framkoma hans í fyrstu ræðu hans í morgun hefði ekki verið ósæmilegri og óþinglegri en framkoma hans hefur orðið í síðari ræðum, eftir að hann fór ögn að átta sig á, hvar hann var staddur. Ég veit líka, að þetta var ekki hans rétta eðli, og get nefnt það nú, að sjálfur hefur hann verið með mér í því að semja orðsendingu til forseta Bandaríkjanna þess efnis, að það sé frumréttur sjálfstæðrar þjóðar að ákveða sjálf stjórnskipunarlög sín. Hann heimtar af mér eftirgrennslanir, en skilur sjálfur, að slíkar eftirgrennslanir geta sýnt alls óþarfan og ósæmandi undirlægjuhátt. Þeir, sem þessa skoðun hafa, eins og ég veit, að við höfum báðir, eiga að viðurkenna, hve hæpið er að líta sífellt á, hvað kunni að vera vilji erlends ríkis. Og hvernig gat hann búizt við, að ég hefði hafið eftirgrennslanir um þetta hjá ríki, sem viðurkennir skilyrðislaust þennan skoðanagrundvöll, þegar hann sjálfur fann enga ástæðu til að spyrja slíks í stjórnarskrárnefndinni? Það er sannleikur þessa máls, að honum þótti þá eins og öðrum ástæðulaust að spyrja um leyfi. — Það er von mín, að með samþykkt þessa frv. komumst við miklu nær marki en áður, þó að við náum ekki marki í haust. Þegar unnt verður að birta öll plögg um málið, mun sjást, að þessi leið er til velfarnaðar og veitir okkur tryggingu, sem getur orðið mjög mikils virði í framtíðinni.

Um konung vorn vil ég segja það, að ekkert hefur verið gert í þessum málum án þess að láta hann vita um það fyrir fram, og ástundað hefur verið að sýna honum virðulega framkomu í hvívetna, enda munum við allir sammála um þann konung, að hann hafi staðið prýðilega í stöðu sinni. Um það, er konung snertir, hefur ríkisstj. haft samráð við formann Framsfl., og mér hefur skilizt, að hv. þm. Str. hefði ekkert við þetta að athuga.

Mér finnst framkoma Framsfl. í þessu stórmáli ekki vera virðuleg né viturleg. Ég vona, að þm. hans skiljist, að með þessu móti aka þeir aldrei heilum vagni heim.