20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Sjútvn. hefur flutt þetta mál eftir ósk hæstv. atvmrh., en flytur svo við það brtt. á þskj. 84, sem n. hefur borið sig saman við hæstv. ráðh. um og hann talið sig samþykkan því, að n. flytji brtt. þessar.

Þessar brtt. eru í fyrsta lagi við 1. gr. frv. um, að í staðinn fyrir það orðalag, sem þar er: „Ríkisstjórninni er heimilt, eins fljótt og ástæður leyfa, að láta reisa nýjar síldarverksmiðjur með 30 þúsund mála afköstum á sólarhring á eftir töldum stöðum:“ komi: „Ríkið lætur reisa nýjar síldarverksmiðjur á þessum stöðum:“ Enn fremur er þessi 1. brtt. um það, að raðað sé öðruvísi nöfnum þeirra staða, sem um ræðir í frv. að reisa nýjar síldarverksmiðjur á, þannig að tveir staðir, þar sem nú eru ekki hafnarskilyrði til þess að reisa síldarverksmiðjur, séu færðir aftur, en þeir staðir, þar sem hægt er vegna hafnarskilyrða að reisa síldarverksmiðjur, séu færðir framar í þessari upptalningu. Þó er ekkert með þessari brtt. fram tekið um það, að verksmiðjurnar skuli reistar þar fyrst, sem staðanöfnin framar í þessari upptalningu benda til, eða þær séu teknar í röð, eftir því sem staðanöfnin standa í brtt., heldur séu verksmiðjurnar byggðar, eftir því sem ástæður leyfa. En stærsta brtt. við 1. gr. er í niðurlagi 1. liðs brtt., þar sem segir: „Enn fremur lætur ríkið reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis, þegar rannsóknir sýna, að það sé tímabært.“ Athuganir hafa farið fram um þetta af hálfu stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins og framkvæmdarstjóra þeirra. Þær athuganir hafa sýnt, að eins og sakir standa, er ekki ráðlegt að leggja í að reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis. En á friðartíma mundi það vera hagkvæmt. Vill sjútvn. fá því slegið föstu, að ríkið reisi slíka verksmiðju, þegar ástæður leyfa. En að sjálfsögðu verður þá leitað fjárveitingarheimildar til þess, og þá verða að liggja fyrir fjárhagsáætlanir um þetta, og Alþ. tekur svo ákvarðanir um þessar framkvæmdir nánar, þegar að því kemur.

Þá hefur n. lagt til, að fjárveitingarheimildin, sem er í frv., verði færð úr 25 millj. kr. niður í 10 millj. kr., þar sem sýnt þykir, að ekki verði ráðizt í þessar framkvæmdir allar á næstunni, og n. leit svo á, að nægilegt væri nú að hafa þessa fjárveitingu 10 millj. kr. að svo komnu. Enn fremur leit sjútvn. svo á, að rétt væri, að lántökuheimildin væri bundin við innanríkislán, en ekki við lán í erlendri mynt, eins og segir í frv.

Afköst síldarverksmiðjanna í landinu munu vera alls um 40 þúsund mál á sólarhring, og þar af hjá Síldarverksmiðjum ríkisins um 20 þúsund mál á sólarhring. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins telur, að eins og nú er háttað, muni hafa tapazt mjög mikil verðmæti vegna þess, að ekki séu nógar síldarverksmiðjur til þess að vinna úr þeirri síld, sem skipin veiða. Og með núverandi útflutningsverðlagi munu hafa tapazt þannig í ár hjá Síldarverksmiðjum ríkisins eingöngu verðmæti, sem nema 12 millj. kr. Nú er við þetta að athuga, að síldveiði hefur verið óvenjulega mikil á þessu ári. En hins ber þá einnig að gæta, að þátttaka í síldveiðum í sumar hefur verið óvenjulega lítil. Til samanburðar má geta þess, að á árinu 1940 var l7l skip að síldveiðum af hálfu Íslendinga, auk þess voru 28 norsk herpinótaskip og færeysk, eða samtals um 200 skip. En á þessu ári eru veiðarnar ekki stundaðar með meira en um 100 herpinótum. Og þrátt fyrir það hefur orðið að setja á löndunarbann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, sem nemur 8 dögum á 6 vikum. Í öðrum síldarverksmiðjum hafa litlar löndunartafir orðið, vegna þess að þær verksmiðjur hafa haft mjög fá skip. En ef veiðiþátttakan hefði verið eitthvað svipuð og var 1940, má gera ráð fyrir, að tapið vegna tafa á löndun hefði orðið miklu meira á þessu ári en það hefur þó orðið.

Síldarverksmiðjur ríkisins, sem afkasta að bræða um 20 þúsund mál á sólarhring, hafa kostað um 8 milljónir kr. Í fyrningarsjóði þeirra hafa verið teknar 1200000 kr., í varasjóði 2800000 kr. Samtals eiga verksmiðjurnar nú í fyrningar- og varasjóðum fjárhæð, sem nemur um 4 millj. kr. En afborganir hafa farið fram á þessum tíma sem svarar 1½ milljón kr. Þannig má segja, að Síldarverksmiðjur ríkisins séu búnar að borga í sér og hafi eignazt í fyrningar- og varasjóðum, sem svarar alls 5½ millj. kr. á þeim tíma, sem þær hafa starfað, sem má teljast mjög vel af sér vikið, af því að sumar þessar síldarverksmiðjur hafa verið tiltölulega dýrar. T. d. kostaði síldarverksmiðjan, sem byggð var 1930, um 1 millj. og 600 þús. kr. og afkastaði þó ekki nema 24 þús. málum á sólarhring. Næst er svo bætt verksmiðju við Síldarverksmiðjur ríkisins, sem tekur til starfa 1935, sem afkastar einnig 24 þús. málum á sólarhring, en kostar um 1 millj. kr. eða um ½ millj. kr. minna en verksmiðjan, sem byggð var árið 1930. Þessi mismunur á byggingarkostnaði þessara tveggja verksmiðja, sem þó bræða jafnmikið á sólarhring, stafar af því, að þegar fyrri verksmiðjan var byggð, voru byggðar við hana svo stórar þrær, að þær nægðu einnig hinni síðar byggðu verksmiðju, enda þótt stofnkostnaðurinn við byggingu þrónna væri talinn með byggingarkostnaði verksmiðjunnar, sem byggð var 1930.

Þegar Síldarverksmiðjur ríkisins hófu starfsemi sína 1930, voru afköst síldarverksmiðjanna í landinu um 9500 mál á sólarhring. Síðan hafa afköst síldarverksmiðjanna í landinu verið aukin smám saman, svo að þau eru nú rúm 40 þús. mál á sólarhring. Þetta nægir ekki þeim flota, sem þátt tekur í síldveiðum hér við land á þessu ári, hvað þá, ef þátttakan væri með fullum krafti eða eins og hún var árið 1940. Þess vegna hefur stjórn síldarverksmiðja ríkisins lagt til, að ríkisstj. legði í að byggja síldarverksmiðjur, svo fljótt sem unnt er, svo að aukin afköst síldarverksmiðja ríkisins yrðu um 30 þús. mál á sólarhring. Það er ætlazt til þess, að þessi aukning fari fram, svo fljótt sem hægt er, á þeim stöðum, þar sem hafnarskilyrði eru þannig, að hægt er að reisa síldarverksmiðjur þar nú þegar, en á öðrum stöðum, sem um getur í frv., verði byggðar síldarverksmiðjur, strax þegar hægt er, eftir að hafnarskilyrði leyfa það.

Ég skal geta þess, að nm. í sjútvn. voru ekki allir á einu máli um frv., eins og það var lagt fyrir í fyrstunni. Bæði áskildu nm. Framsfl. og nm. Sjálfstfl. sér rétt til þess að koma með brtt. við frv. En þær brtt., sem hér eru á þskj. 84, eru samkomulagsbrtt. frá n. allri, enda mun ekki n. í heild né einstakir nm. flytja aðrar brtt. við frv. en þær, sem á því þskj. eru.

Legg ég til, að brtt. verði samþ. og frv. að því loknu vísað til 3. umr.