20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Skúli Guðmundsson:

Í grg. með þessu frv. á þskj. 64 höfum við hv. 1. þm. Skagf., fulltrúar Framsfl. í sjútvn., skýrt frá sérskoðunum okkar í aðalatriðum. Við erum samþykkir því, að ákveðin sé með lögum framtíðarskipun síldariðnaðarins á vegum ríkisins og þær síldarverksmiðjur verði reistar, sem 1. gr. til tekur, en teljum rétt, að við sé bætt 5 þúsund mála verksmiðju við vestanverðan Húnaflóa, líklega helzt á Hólmavík, en fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. gátu ekki á það fallizt, — jafnframt sé ákveðið, að ríkið hafi einkarétt til að reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis og verði hún reist, þegar rannsóknir sýna, að það sé tímabært. Í öðru lagi teljum við óþarft að veita að svo stöddu eins háa lántökuheimild og gert er ráð fyrir í 2. gr., þar sem auðséð er, að alllengi muni dragast að reisa verksmiðjur á þeim stöðum, sem skortir til þess nauðsynleg hafnarmannvirki. Auk þess vantar allar áætlanir um kostnað við framkvæmdirnar. Ástæðulaust er að gera ráð fyrir lántöku erlendis, þegar innieignir okkar þar eru komnar yfir 200 milljónir kr., og er erfitt að skilja, hvernig mönnum getur dottið í hug og hvernig ríkisstj. getur borið fram till., þar sem erlendar lántökur eru ráðgerðar. Um einstök atriði þessa má síðar ræða. Um lýsisherzlustöðina þótti rétt, að ríkið ætti hana og hefði þá einkarétt, þar sem gert er ráð fyrir, að meiri hl. síldarvinnslunnar sé á þess hendi eftir þessa aukningu, og yrði það til þess að tryggja sjómönnum og útgerðarmönnum sannvirði framleiðslu þeirra á hverjum tíma. Um öll þessi atriði áskildum við okkur rétt til að bera fram brtt. fyrir 3. umr.

Á síðasta þingi gerði ég umkvörtun um það, að reikningar verksmiðjanna hafa ekki verið birtir að undanförnu, eins og lög mæla fyrir. Ég flutti þáltill. ásamt hv. þm. N.-Þ., um, að birtar yrðu ársskýrslur verksmiðjanna. En til þess að fá yfirlit yfir, hvernig hagur verksmiðjanna væri í raun og veru, leitaði ég eftir að fá lánaða reikninga þeirra, og hefur nú sjútvn. haft þá í höndum. Samkv. þeim er stofnkostnaður ríkisverksmiðjanna orðinn rúmar 8 millj. alls. Allar endurbætur hafa verið færðar á eignareikning. Skuldahækkun verksmiðjanna vegna gengislækkunar íslenzkrar krónu, sem varð 1939, er talin með eignum, þ. e. bætt við stofnkostnað verksmiðjanna, en ekki afskrifuð sem tap. Afborganir á stofnlánum, sem eru færðar með gjöldum ár hvert, og fyrningarsjóðir eru í árslok 1941 samtals 2712 þús. kr. Sé sú upphæð dregin frá stofnkostnaði, verða eftir 5300 þús. kr., sem eru raunverulegt bókfært verð verksmiðjanna um síðustu áramót. Varasjóðir voru um síðustu áramót 2.8 millj. kr.

Oft hefur verið á það bent að undanförnu, að mikið tap hlytist af því, að ekki er hægt að taka á móti allri þeirri síld, sem aflast. Þetta er rétt, og æskilegt, að hægt væri að afstýra því tapi. En um leið og aukið er við verksmiðjurnar á dýrum tíma, þarf að tryggja það, að þær fái nógu mikið í sinn hlut af afurðaverðinu, meðan það er hátt, til þess að geta borgað ríflega af stofnkostnaðinum og komizt á fjárhagslega tryggan grundvöll. Ég tel, að þessa hafi ekki verið gætt sem skyldi síðustu árin. Árið 1939 varð að vísu allmikill tekjuafgangur. 1940 varð aftur ekki um tekjuafgang að ræða, og 1941 hefur orðið halli á rekstrinum, sem nemur rúmum 134 þús. kr. Hefur um það bil helmingur af varasjóðstillaginu það ár eyðzt í rekstrarhalla. Það má ekki endurtakast á tímum, þegar afurðaverð er svo hátt sem það var 1941. Hætt er við, að þá gengi erfiðlega á tímum með lágu afurðaverði, ef ekki verður komizt hjá rekstrarhalla, meðan afurðaverð er hæst, og ekki hægt að afskrifa eignirnar ríflega í árferði eins og nú er.

Í n. lögðum við framsóknarmenn áherzlu á þá nauðsyn að afskrifa nú eignirnar ríflega og tryggja þannig framtíðarreksturinn. Enn hefur ekki orðið samkomulag í n. um till., sem tryggt gæti þetta, en fyrir 3. umr. mun verða athugað, hvort n. getur ekki flutt slíka till. Þetta mætti framkvæma þannig að borga aukaafborganir, þegar verðið er óeðlilega hátt, eða ákveða, að þegar lán eru tekin til verksmiðjubygginga á dýrum tíma, skuli nokkur hluti þeirra lána greiddur á tiltölulega skömmum tíma. Auðsætt er, að ef ríkisverksmiðjurnar leggja í nýjar framkvæmdir á mjög dýrum tíma, hljóta þær um langa framtíð að standa verr að vígi en verksmiðjur í einkaeign, sem reistar voru fyrir stríðið. — Gildir það að vísu nokkuð jafnt, hvort sem stofnlánin eru greidd á lengri eða skemmri tíma, en hitt liggur í augum uppi, að auðveldari eru þær greiðslur fyrir sjávarútveginn, meðan afurðaverð er hátt, eins og það er nú, en eftir að það er orðið lægra, eins og áður var. Þrátt fyrir dýrleikann getur verið rétt að ráðast í verksmiðjubyggingarnar nú, eins fljótt og unnt er, vegna hinnar miklu þarfar útgerðarinnar á auknum vinnuafköstum.

Það, sem ég hef nú nefnt um fjárhag síldarverksmiðjanna, þarf að hafa huga til að tryggja öruggan framtíðarrekstur þessara fyrirtækja.

Sjútvn. telur ekki skylt að reisa verksmiðjurnar í þeirri röð, sem þær eru nefndar í brtt. Að sjálfsögðu verður þetta þannig, að verksmiðjur verða fyrst reistar á þeim stöðum, þar sem hafnarskilyrðin eru fyrir hendi, en á sumum stöðunum, svo sem Húsavík og Skagaströnd, þarf að auka við hafnarmannvirki, til þess að unnt sé að reka þar verksmiðjurnar, sem ráð er fyrir gert.