20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. — Frv. þetta byggist á þeirri brýnu þörf, sem aldrei hefur orðið ljósari en í sumar, þegar sett eru veiðibönn um lengri tíma eða skemmri, hvað eftir annað. Og fleiri sumur hefur það orðið eins.

Þó að ekki sé fært að framkvæma á skömmum tíma þá miklu aukningu verksmiðjanna, sem hér er ráðgerð, vil ég ekki segja, að neitt sé á móti því að ákveða hana nú þegar í því formi, sem í frv. er gert. En það, sem þegar er hægt að framkvæma, mega menn ekki láta ógert fyrir því. Hvers vegna hefur yfirstjórn síldarútvegsins ekki hrundið því í framkvæmd, að Krossanesverksmiðjan sé tekin í notkun? Af stríðsástæðum hafa hinir norsku eigendur ekki getað starfrækt hana. Hvers vegna hefur ekki verið reynt að fá hana leigða? Ég sé að fram er komin þáltill. um, að ríkisstj. láti athuga möguleika á að fá verksmiðjuna í eigu ríkisins. Ég vil aðeins benda á þetta og geri ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf., sem er í verksmiðjustjórninni, geti veitt einhver svör í málinu og svo ríkisstjórnin. Þetta er sú eina aukning, sem þegar hefði getað orðið á þessu ári.