20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Sigurður Kristjánsson:

Það er að sjálfsögðu ekki rétt hjá hv. þm. Ísaf., að þetta komi ekki frv. við, sem ég var að tala um áðan, því að þessi heimild er ekkert smáskref, og þeir, sem álíta, að nota eigi framtak einstaklingsins til hins ýtrasta, vilja ekki, að lagðar séu neinar hömlur á, að það fái að njóta sín, þar sem það er til staðar. Ég hef alltaf haldið því fram og held því fram enn, að ég tel ekki, að ríkið eigi að vera að „spekúlera“ með þessi mál, heldur eigi það aðeins að bæta úr brýnustu þörf.

Þegar sjávarafurðir okkar, aðallega saltaður þorskur, mættu nokkrum örðugleikum á markaði, en aftur var góður markaður fyrir fituefni, þá var bannað með lögum, að reisa mætti síldarverksmiðju. Ég hef tvisvar flutt till. um að nema burtu þetta ákvæði, og hv. þm. Ísaf. var mér sammála, svo að óþarfi er fyrir okkur að vera að deila um þetta atriði.