24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég stend upp til að gera grein fyrir fáfræði minni. Mig vantar undirstöðu til að geta skapað mér skoðun um það, hve mikil afköstin þurfa að vera hjá bræðslustöðvunum, en það finn ég ekki í grg. frv. Það er talað um, að afköstin þurfi að auka um 25000 mál, til þess að stöðvarnar geti tekið við síldinni á miklum veiðisumrum, en eiga þær þá að standa tómar, þegar verr veiðist? Hvað þurfa síldarverksmiðjurnar að geta tekið á móti mikilli síld til bræðslu á sæmilegum meðalsumrum? Það hefur verið talað um mikinn skaða í sumar, af því að skipin hafi þurft að bíða, en á sama tíma standa a. m. k. 4 verksmiðjur ónotaðar vegna þess, að sagt er, að menn fengust ekki til vinnunnar. Var þörf á enn fleiri verksmiðjum til að standa ónotaðar? Ég skil ekki það samræmi, og mér er alls ekki ljóst, hve mikil raunveruleg þörf er á aukningu. Það er búið að veita a. m. k. tveimur einstaklingum leyfi til að stofna nýjar síldarverksmiðjur með 20 þúsund mála afköstum, og svo bætast við 25000 mál samkv. þessum till. Er þess arna þörf? Þetta vil ég fá upplýst, og á því byggist afstaða mín til málsins, hvort það tekst að koma mér í skilning um þörfina á því að stækka verksmiðjurnar og auka afköstin á meðal síldarári.