24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. þm. Ísaf. (FJ) taldi, að ekki væri ástæða til að fjölga verksmiðjum við Húnaflóa vegna þess helzt, að einstakir menn hefðu bækistöðvar við flóann, og væri í ráði að auka það. Ég vil benda hv. þm. á, að þau skip, sem skipta við verksmiðjur ríkisins, vilja ógjarnan fara til einstakra manna. Ríkisverksmiðjurnar mundu aldrei una því heldur. Ég efa, að samningar tækjust þannig, jafnvel þó að veiðiskapur væri meiri á ýmsum tímum en unnt væri að taka á móti. Ég held, að það færi svo, að skipin biðu. Það fer að verða alvarlegt, ef hindrunarlítið á að veita einstaklingum heimild til að setja á stofn síldarverksmiðjur. Ríkið er búið að leggja mikla fjármuni í þetta, og gæti farið svo, að lítill hagnaður yrði, ef á að halda áfram að leyfa einstaklingum að keppa við ríkisverksmiðjurnar.

Ég bjóst ekki við andmælum frá hv. þm. A.-Húnv., því að þótt verksmiðja komi á Skagaströnd, er veiðiskapur svo mikill við flóann, að hún hefði nóg að starfa. Ég held því, að öll sanngirni mæli með því, að þessu sé bætt í frv. Þegar horfið verður að framkvæmdum, verða þær byggðar á fullkomnum athugunum og litið á þá raunverulegu þörf, sem er fyrir aukningu. Það á að vera næg trygging.

Ég vona, að hv. d. taki brtt. vel.