24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Þess var getið í umr., að hafnargerð á Húsavík ætti langt í land og því mundi vera nægur tími til að bæta við afkastagetu verksmiðjunnar þar. Ég hef tilhneigingu til þess að vera með því, að verksmiðjan á Húsavík sé stærri en getur í frv., en fellst á röksemdirnar fyrir því, að óþarfi sé að ákveða hana stærri nú.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. N.-M. skal ég geta þess, að ég er ekki viss um, að ég geti upplýst hann eins og hann telur þurfa. Ég tel, að sú aukning, sem lagt er til, að gerð verði, eigi að nægja í góðu meðalári, en það er aðeins skoðun, sem ég get eigi sannað. Það er, held ég, bent á það í grg., að árið 1940 hafi herpinótaveiðar verið stundaðar með helmingi fleiri nótum en á þessu ári, og geri maður ráð fyrir, að síldveiðarnar séu stundaðar af álíka krafti, lætur þetta nærri. En svo koma ár, sem síldarverksmiðjurnar standa tómar, og það hafa komið fyrir ár, þegar enga verksmiðju hefur þurft, t. d. 1935. Við slíku er ekkert að gera. Það verður að miða við góða meðalveiði.

Þegar um afgreiðslu mála hér er að ræða, þá eru fleiri en einn vegur til að hindra framgang þeirra. Algengast er að gera það með því að vera á móti málinu. Þá má vísa þeim til stjórnarinnar, en í þriðja lagi má gera þau svo flókin og margbrotin, að þau tefjist þess vegna. Mér finnst brtt., sem liggja fyrir frá tveimur framsóknarmönnum, miða að þessu. Þó að seinna gæti komið til mála að auka við, eins og þeir stinga upp á, tel ég málinu núna stofnað í voða með því að bæta meira við frv. Ég vil því skora á þá þm., sem er það áhugamál, að koma frv. í gegn, að greiða atkv. á móti þeim brtt.