26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Ég efast ekki um, að hv. þm. Barð. sé kunnugri þessum málum heldur en ég, og er gott að hann fjallar um þetta frv. í n., en ég vil ítreka þau tilmæli mín við hv. n., að hún geri ekki breyt. á frv. úr þessu, því að það gæti orðið til þess, að málið yrði ekki afgr. á þessu þingi.

Ég er ekki sammála hv. þm. Barð. um, að eins mikill munur sé á frv. á þskj. 64 og nú, eftir að það kom frá Nd., og hann vill vera láta. Mesta muninn telur hann þann, að breytt hafi verið úr heimild í skipun, en í raun og veru er í báðum tilfellum um heimild að ræða, því að í 2. gr. á þskj. 124 er nýtt ákvæði þannig: „....sem hefjist svo fljótt sem ástæður leyfa....“ o. s. frv. Það er því algerlega á valdi ríkisstj., hvenær hún notar þessa heimild. Um hitt atriðið, að lánsheimildin hefur verið lækkuð niður í 10 millj. kr. úr 25 millj., er það að segja, að á þskj. 64 er gert ráð fyrir 25 millj. kr. til alls verksins, en á þskj. 124 eru 10 millj. kr. ættaðar til byrjunarframkvæmda aðeins, og mér finnst heppilegra að hafa það þannig, og að ríkisstj. komi þá aftur til Alþ. til frekari lánsheimilda.

Ég er hv. þm. Barð. sammála um, að verksmiðjustjórnin í samráði við viðkomandi ráðh. leggi til, hvar verksmiðjurnar verði reistar, en ég efast um, að þær ástæður, sem hv. þm. taldi upp, liggi til þess, að ákveðið hefur verið að reisa síldarverksmiðjur á Sauðárkróki og Húsavík. Báðir staðirnir liggja mjög vel við síldveiði, og Húsavík er mitt fyrir bezta veiðisvæðinu. Báðir staðirnir uppfylla því fullkomlega þau skilyrði, sem fyrir hendi þurfa að vera til þess að reisa síldarverksmiðjur. — Um Skagaströnd er það að segja, að ég tel hana mjög heppilega valda til þess að taka á móti síldinni af Húnaflóa. Ég get sagt það, að ég hef ekki miðað till. mínar við það, hverjir fastast hafa sótt á, heldur við það, sem ég áleit hyggilegast. — Ég mælti með Sauðárkróki, af því að staðurinn liggur vel fyrir, og einnig vegna þess, að þetta er fjölmennt kauptún, sem hefur gott af því að fá verksmiðju. Verksmiðjustjórnin féllst á að hafa Sauðárkrók með, enda þótt hún hafi ekki haft hann í sinum till., vegna þess að hún taldi hann liggja of nærri Siglufirði og litlu meira hagræði í að fara með síldina þangað heldur en til Siglufjarðar, sérstaklega þegar verksmiðja væri komin á Skagaströnd líka.

Ég er sammála hv. þm. Barð. um, að Alþ. eigi að standa af sér persónulegan vilja eða héraðstogstreitur og ákveða sjálft, hvar verksmiðjurnar séu reistar, og þess vegna var ég mótfallinn því að fela sérstakri nefnd að rannsaka verksmiðjustæði. Einu sinni var slík n. send umhverfis landið, og hún átti ekki sjö dagana sæla, því að margir voru þeir, sem vildu fá verksmiðjur.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja það, að ég get vel unað við frv., eins og það er nú.