28.08.1942
Efri deild: 17. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Einar Árnason:

Við þm. Eyf. flytjum brtt. við þetta frv., þar sem gert er ráð fyrir því að fjölga þeim stöðum í frv., þar sem byggðar væru síldarverksmiðjur. Það er vitanlegt, þó að gert sé ráð fyrir því í frv. að reisa þessar verksmiðjur, að þá verður það ekki gert nú, jafnvel ekki á næstu árum, heldur er þetta eins konar framtíðaráætlun um það, að byggðar verði síldarverksmiðjur á þessum stöðum, þegar ástæða þykir til þess. En það getur alltaf verið álitamál, hvaða staðir eru hentugastir, og þá jafnvel það, hvaða staðir eigi að koma fyrstir og hverjir síðastir. Við leggjum til í þessari brtt., að byggð verði verksmiðja á Dalvík og í Hrísey. Það stendur þannig á í Dalvík, að þar er verið að byggja höfn, og er það mannvirki komið talsvert langt á leið, en verður vitanlega dýrt, og þess vegna verður nauðsynlegt fyrir það sveitarfélag að geta komið upp fyrirtæki, sem gæti létt undir með að greiða þær skuldir, sem óhjákvæmilega verða fyrir hendi, þegar höfnin er fullgerð. Í Hrísey er einnig mjög hentugur staður fyrir síldarverksmiðju, og það er nú oft svo, að síldveiðin er einmitt mikil um þessar slóðir, bæði við Dalvík og við Hrísey.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, ég sé, að í nál. sjútvn. er ætlazt til þess, að þetta frv. gangi fram óbreytt eins og það liggur nú fyrir. En ég vænti þess samt, að hv. þdm. telji það ekki til baga, þó að þessum stöðum sé bætt við. Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki, þegar til atkvgr. kemur, bera stafliðina upp sinn í hvoru lagi, því að það væri hugsanlegt, að hv. þdm. féllust á að byggja síldarverksmiðju á öðrum staðnum, en ekki á hinum. En ég skal ekki leggja neitt kapp á það, hvor staðurinn yrði þá valinn.