28.08.1942
Efri deild: 17. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, og það rýrir ekkert þakklætið til hennar, þó að hv. frsm. kunni að hafa aðrar skoðanir á einstökum atriðum, þar sem n. mælir öll með því, að frv. verði samþ. óbreytt.

Viðvíkjandi því, að undirbúningur undir þetta mál hafi verið lítill, þá vil ég aðeins segja það, að þessar áætlanir hafa verið alllengi á döfinni hjá stjórn verksmiðjanna, og verksmiðjustjórnin ræddi þessi mál við mig. Meðal annars var rætt um fyrirkomulag verksmiðjanna og einnig það, sem hv. frsm. minntist á, að verksmiðjurnar yrðu gerðar þannig úr garði, að það mætti starfrækja þær að hálfu leyti. Ég ræddi einnig við verksmiðjustjórnina um það, að það væri vandlega rannsakað, hvort hægt væri að lengja vinnutíma þessara dýru fyrirtækja, þannig, að þau gætu verið starfandi hálft árið. Það liggur alveg í augum uppi, að þetta er mikið rannsóknarefni og að hér er vafalaust um mikilsverðan þátt í þessari atvinnugrein að ræða. Ég vil aðeins í sambandi við þetta mál minnast á meðferð hv. Nd. á því og lækkun lánsheimildarinnar. Það var gert í samráði við mig, af því að mér þótti eðlilegt, að lánsheimildin væri miðuð við byggingarframkvæmdir. Heimildin virtist nokkuð út í bláinn, þar sem hún var komin upp í 39 millj. kr., en nú hefur hún verið færð niður í 9–10 millj. kr. Ég álít, að hér sé komið svo langt út í framtíðina, að þýðingarlaust sé að gera nokkrar frekari áætlanir til svo langs tíma.

Viðvíkjandi fram komnum brtt. frá þm. Eyf. á þskj. 134, þá vil ég ekki vera að reka hornin í það, og út frá þeirri röksemd hv. 1. flm., að hér sé aðeins um framtíðaráætlun að ræða, er þetta náttúrlega sjálfsagt, en ég vil þó samt mega vænta þess, að hv. d. breyti ekki þessu frv., svo að það þurfi að fara aftur til hv. Nd. Ég vil því fara fram á það, að frv. verði samþ. óbreytt.