31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Einar Árnason:

Við þm. Eyf. höfum gert brtt. við frv. um að bæta Ólafsfirði við þá staði, þar sem fyrirhugað er að reisa síldarverksmiðjur. Það má segja um Ólafsfjörð eins og þá tvo staði, sem við höfum áður lagt til, að bætt yrði inn í frv., — þótt sú till. fyndi ekki náð fyrir augum hv. d. —, að síldarmið eru þar góð úti fyrir og aðstaða ágæt til að hafa þar síldarverksmiðju, þegar búið er að laga höfnina. Þar er nú verið að koma upp rafmagnsstöð, og mundi hún verða verksmiðjunni til mikils hagræðis, en hins vegar mundi verksmiðjan verða til þess að styðja þetta fyrirtæki, sem Ólafsfirðingar eru nú að ráðast í. Vænti ég þess, að hv. d. sýni till þessari velvilja.