01.09.1942
Efri deild: 19. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

44. mál, lendingarbætur á Skálum

Gísli Jónsson:

Ég sem form. sjútvn. lýsi hér með yfir því, að ég er sammála því, að þetta frv. nái fram að ganga, en vil hins vegar taka það fram, að ég tel þessa braut svo varhugaverða, að rétt sé að gera sér grein fyrir því, hvert stefnir í þessum málum. Hér er um að ræða 150 þús. kr. fyrirtæki, þar sem ætlazt er til, að 75 þús. kr. komi frá ríkissjóði. Geri ég ekki svo mikið úr þessu tillagi ríkissjóðs, þar sem ekki er ætlazt til, að þetta verði endurtekið. En hinn helminginn á hreppurinn að leggja til. Það liggur ekkert fyrir um það, hvort hreppurinn getur staðið undir þessu, og er það varhugavert. Ættu alltaf, þegar líkt stendur á, að vera til útreikningar um það, hvaða möguleikar eru til þess, að hreppurinn geti tekið slíkar skuldbindingar á sig. Það hefur ekki heldur verið upplýst, hve mikið landrými er fyrir ofan þennan stað. En við höfum ekki gert mikið úr þessu, þar sem fiskifélagið hefur mælt með málinu.