12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

24. mál, raforkusjóður

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Rafmagnsmál sveitanna eru mál, sem tímabært er að tala um og ráða til lykta. Það er þó ekki svo að skilja, að efni þessa frv. sé neitt nýtt mál hér á Alþ., því að á árinu 1929 flutti Jón Þorláksson, eins og mönnum er kunnugt, sitt merkilega og mikilvæga frv. um raforkumál sveitanna. Sjálfstæðismenn sýndu það þá, og þeir hafa ætíð sýnt það, að þeir vilja veita þessum málum fullkomna athygli og skilja gildi þess, að rafmagn verði sem mest notað í sveitum landsins. Thor Thors flutti ásamt öðrum frv. til l. um raforkusjóð, þar sem úr honum var hægt að veita allt að 4/5 stofnkostnaðar af raforkuverum. Einnig átti frv. hv. þm. Borgf. (PO), er hann bar fram 1941, fullan rétt á sér sem og fleiri frv., er fram hafa komið á Alþ. og gengið í þá átt að hjálpa sveitunum til að koma upp raforkuverum og raforkuveitum. En í þessu máli er ekki nóg að setja nefndir á rökstóla til þess að athuga raforkumál sveitanna og leiðir til fjárafla í því skyni. Það gæti orðið til þess að tefja og hindra framkvæmdir í þessu máli, þar sem nefndir eru oft seinar til að skila áliti, og þá gæti svo farið hér, að fé yrði ekki fyrir hendi, er til ætti að taka. Það, sem ég finn þeim frv., er fram hafa komið um þetta mál sveitanna, til foráttu, er að þau hafa gengið of skammt í áttina að settu marki. Það hefur verið skortur á stórhug til framkvæmda. En raforkumál sveitanna eru þannig nú, að þau þola enga bið, og það þarf strax að gera það, sem gera þarf. Það þarf strax að hefjast handa um tekjuöflun, og þess vegna er frv. okkar sjálfstæðismanna komið fram og liggur nú fyrir til umr. Það er að nokkru sniðið eftir frv. um sama efni, eins og það var eftir 2. umr. á síðasta þingi, að öðru leyti en því, að framlagið úr sjóðnum hækkar, og er því gert ráð fyrir stofnfénu svo miklu, að hægt sé að veita öfluga styrki úr sjóðnum strax og efni til rafstöðva fæst. Hann á að geta, eins og tekið er fram í frv., veitt styrk, sem nemur 25–50% af stofnkostnaði orkuvers eða orkuveitu, en í hinu frv. var miðað við 15–30%. Ef rafmagn á að verða almennt í sveitum landsins, þarf að styrkja orkuverin a. m. k. þetta, sem fram á er farið í frv., ef bændum á að verða kleift að ráðast í framkvæmdir slíkra fyrirtækja.

Sumum mun e. t. v. finnast hér vera of langt gengið í kröfum á hendur ríkinu, að því skuli ætlað að leggja 5 millj. kr. og svo 500 þús. kr. árlega, en þá vil ég minna hv. þm. á það, að ríkið hefur aldrei haft úr jafnmiklu að spila og einmitt nú, þar sem nettótekjur ríkissjóðs námu 17 millj. kr. 1941. Það virðist því engin goðgá vera, þó að farið sé fram á þessa upphæð, þar sem fénu á að verja til þess, sem öllum landslýð mun verða til bóta.

Við höfum horft á fólksstrauminn úr sveitunum í kaupstaðina, sem með hverju hinna síðustu ára hefur farið ört vaxandi, og það er því brýn nauðsyn fyrir alla hugsandi menn að gera sér þess ljósa grein, í hverju það öfugstreymi er fólgið og hvað að baki því liggur, svo og, á hvern hátt það megi lagfæra. Og menn munu komast að raun um það, að fólkið streymir þangað, sem þægindin eru og lífsskilyrðin eru betri. Það ætti því ekki síður að vera áhugamál verkamanna og sjómanna en annarra að stöðva þetta öfugstreymi í tæka tíð, sem það er vitað, að atvinna í kaupstöðum landsins og annars staðar í þéttbýlinu mun þverra mjög að stríðinu loknu. Það, sem því þarf að gera, er að bæta lífsskilyrði sveitafólksins á þann hátt, sem hér er bent á, og á þann hátt einan er hægt að stemma stigu við fólksstrauminum úr sveitunum, því að það er ekki nema eðlilegt, að fólkið í landinu, hvort sem það býr í sveit eða kaupstað, geri kröfu um lík þægindi og lífsskilyrði.

Að lokum vil ég taka það fram, að frv. þetta er borið fram í þeirri trú, að það verði að lögum á þessu þingi, og flm. vænta þess, að því verði mætt með drengskap og skilningi. Legg, ég svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.