12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

24. mál, raforkusjóður

Sigurður Kristjánsson:

Það hefði verið ástæða fyrir mig og fleiri sjálfstæðismenn að kveðja okkur hljóðs til að mæla með þessu frv., þó að engin aths. hefði komið fram við það. Ég kvaddi mér hljóðs út af ummælum hv. þm. V.-Sk.

Það er mál, sem þarf ekki að deila um, að Sjálfstfl. hefur fyrir löngu gert rafmagnsmálið að baráttumáli sínu, og þótt að sjálfsögðu megi deila um þær leiðir, sem flokkurinn og flokksmenn hafa valið og hvatt til að leggja út á í þessu máli, verður ekki um það deilt, að Sjálfstfl. hefur haldið uppi baráttu fyrir rafmagnsmálunum og fyrst og þrautseigast reynt að boða trú á þá miklu þjóðhagslegu blessun, sem leiða mundi af rafmagnsveitunum. En það er vitanlega hægt að koma þessu máli fyrir á mjög mismunandi hátt, og eins og ég tók fram áðan, má alltaf deila um, hversu heppilegt sé að stofna til hvers fyrirtækis fyrir sig. En það verður að teljast mjög undarlegt, að einn hv. þm. skuli standa upp og heilsa þessu frv. með ókvæðisorðum til einstakra þm. og eins flokks og það þess flokks, sem hefur gerzt brautryðjandi í þessum málum.

Ég skal ekkert um það fullyrða, ekki einu sinni láta mér detta í hug, að Framsfl. sé fjandsamlegur rafveitum, það væri slíkt óeðli, að ég held, að engin mannkind geti verið með slíku óeðli, ekki einu sinni í Framsfl., en Framsfl. hefur að þessu sinni eins og áður ekki metið málin eftir því, sem þau eru í eðli sínu, heldur eftir því, hverjir hafa flutt þau. Þess vegna hefur sífellt andað kalt til þessa máls, þegar menn úr Sjálfstfl. hafa flutt það fram. Mér finnst ummæli þessa hv. þm. benda enn á þetta sama eðli framsóknarmanna, að þeir meti málin eftir flm.

Ég hef séð, að menn úr Framsfl. hafa verið að fitja upp á slíkum málum, hver fyrir sitt kjördæmi, einkanlega þegar kosningar hafa staðið fyrir dyrum, en að öðru leyti hefur ekki borið mjög mikið á áhuga þessa lofsamlega flokks í rafveitumálunum, en á það má minna, að þegar þessu máli var fyrst hreyft á myndarlegan hátt, sem var af Sjálfstfl. og fyrir hans hönd af Jóni Þorlákssyni, þá reis Framsfl. gegn því með fáheyrðum fjandskap, og hefur því máli ekki verið hreyft svo síðan, að menn úr Framsfl. hafi ekki risið upp með ofsa út af þeirri dirfsku og hafa kallað vitfirringu að koma fram með slíkt mál. Þessi brigzl um óframsýni, heimsku og vanhyggju hjá Jóni Þorlákssyni eru merkileg af því, að sá maður var annars ekki vændur um það að fara með fleipur eða vera öðrum ógleggri á verklega hluti, enda hafði hann vit og menntun til að geta dæmt betur um svona hluti en almenningur. Ég vil minna á þessa herferð Framsfl., þegar stærsta rafvirkjun á Íslandi var á döfinni, að hann lét það m. a. verða ástæðuna til, að þing var rofið, að fram var komið þetta mikla landráðamál, sem flokkurinn taldi þetta mál vera, og það yrði að stöðva. Ég held, að menn, sem hafa slíka verðleika í pokahorninu sem framsóknarmenn, ættu helzt að hafa hljótt um sig. Það er bezt fyrir þá annaðhvort að þegja eða segja, að þeir vilji snúa frá villu síns vegar.

Þó að ástæða væri til að fara um þetta mörgum og alvarlegum orðum, þá held ég, að þess gerist ekki þörf, bæði vegna þess, að gangur þessara mála og þátttaka manna í þeim er þjóðkunnug, og eins vegna þess, að þau orð, sem hv. þm. V.-Sk. mælti hér, voru þau vanstillingarorð, að ég held, að þau dæmi sig bezt sjálf.

Það er ekki nema eðlilegt, að flm. þessa frv. taki nokkuð dýpra í árinni en gert hefur verið um fjárframlög, því að vitað er, að sama fjárupphæð nær nú miklu skemmra en áður og verður því að skammta miklu stærra til sömu framkvæmda. En af því að minnzt hefur verið hér á þau frv., sem fram hafa komið áður um rafveitumál, þá vil ég taka fram, að mér er ekki kunnugt um, að þar hafi verið ágreiningur um annað en tekjuöflunina. Menn greindi að sjálfsögðu á um, hversu fullnægjandi það fé væri, sem þar var gert ráð fyrir, og vitanlega væri það algerlega ófullnægjandi nú, og að öðru leyti greindi menn á um, hvernig ætti að afla fjárins. Framsóknarmenn lögðu mjög mikla áherzlu á, að féð væri tekið frá öðrum rafveitum, en það sýndist okkur ýmsum öðrum óskynsamlegt, einkanlega þegar mælikvarðinn var slíkur, að rafveiturnar áttu að greiða skatt af skuldum sínum, því hærri skatt sem þær voru skuldugri. Ég lagði til, til samkomulags, að rafveiturnar gyldu að sönnu í þennan sjóð, en ekki fyrr en þær hefðu borgað skuldir sínar að vissu marki, en við það var ekki komandi, a. m. k. ekki af hálfu framsóknarmanna. Það varð að leggja þennan skatt á rafveiturnar, þó að þær skulduðu allan stofnkostnaðinn. Kom þar fram eins og oft endranær, að Framsókn vill ekki koma fram með mál mönnum til hjálpar, nema hún geti um leið gert öðrum mein.