12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

24. mál, raforkusjóður

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. — Umr. um þetta mál hafa farið á annan veg en ég ætlaðist til, en ég vil virða hv. þm. V.-Sk. (SvbH) það til vorkunnar, þó að hann verði heitur. Ég efa ekki, að hugur hans sé heill í þessu máli og að hann vilji koma því í höfn, en það er ekki rétta leiðin að hefja illdeilur að tilefnislausu. Það er nokkuð utan við dagskrána að blanda Göbbels útbreiðslumálaráðherra Þýzkalands, inn í umr.

Hv. þm. V.-Sk. hneykslaðist mjög á því, að ég gat þess, að mál þetta væri flutt í fullri alvöru. En það þarf ekki að hneykslast á því, því að svo mikla ástæðu hef ég til þess að ætla, að ýmis frv. af hendi framsóknarmanna um rafmagnsmál séu ekki flutt í alvöru. Það hefur ekki verið svo að sjá sem frv. framsóknarmanna á undanförnum þingum hafi verið flutt í fullri alvöru eða til þess eins að koma rafmagnsmálinu heilu í höfn, þegar ekki var annað ráð fyrir hendi en að afla teknanna með sköttum á skuldug fyrirtæki, því hærri sköttum sem fyrirtækin voru skuldugri. Það hlýtur að vera á móti allri hagfræði. Og þeir, sem ekki sjá aðra leið til að koma í framkvæmd rafmagnsmálum sveitanna, hafa ekki í fullri alvöru viljað berjast fyrir þeim. Ég vil upplýsa hv. þm. V.-Sk. um það, að Sjálfstfl. stendur óskiptur að þessu frv. Það er ætlun flokksins, að frv. nái nú fram að ganga, og munu fulltrúar hans í fjhn. gera það, sem í þeirra valdi stendur, til að hraða því. Rafmagnsmál sveitanna þolir enga bið. Hér er því aðalatriðið, að málið fái framgang, en að tíma þingsins sé ekki eytt í kjánalegan meting.

Ég vil að endingu óska þess, að hv. þm. fylgi málinu af fullum drengskap.