12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

24. mál, raforkusjóður

Skúli Guðmundsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í umr. á þessu stigi málsins, en þar sem hv. flm. hafa oftar en einu sinni vikið að frv., sem ég flutti upphaflega, um rafveitulánasjóð, vil ég segja nokkur orð.

Flm. frv. á þskj. 25 hafa tekið upp frv. frá síðasta þingi, sem flutt var af framsóknarmönnum og hv. þm. Borgf. Í 2. gr. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði til raforkusjóðs 5 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1941 og 500 þús. kr. á ári, en ekki er greinilegt í frv., hvað lengi. Væntanlega hafa flm. aflað sér upplýsinga um, að enn sé óráðstafað 5 millj. kr. af tekjuafganginum 1941. Þar sem þeir eru úr stuðningsflokki ríkisstj., tel ég víst, að þeir hafi gert það. Það er búið að ráðstafa 8 millj. af afganginum 1941 í framkvæmdasjóð. Þess utan upplýsti hæstv. fjmrh. á síðasta þingi, að einhver upphæð væri í vörzlum ríkisstofnana sem þeirra rekstrarfé, og á síðasta þingi var samþ. heimild til að greiða verðuppbætur á útflutningsvörur landbúnaðarins ár ið 1941. Ég man, að einn af þm. Sjálfstfl., sem nú er 3. landsk. þm. (SK), talaði um, að það ætti að nota til þess einhvern hluta af tekjuafganginum 1941. Mér er ekki ljóst, hversu miklu er enn óráðstafað, en ef fé er fyrir hendi, tel ég það gott. Ég vænti þó, að vegna þessa verði ekki látið niður falla að greiða nauðsynlegar verðuppbætur til landbúnaðarins.

Það var á þingi 1939, sem ég bar fram frv. um rafveitulánasjóð. Þar var lagt til, að þær stóru rafveitur, sem komið hafði verið á fót, greiddu gjald í sjóðinn, sem miðaðist við þá upphæð, sem þær höfðu ríkisábyrgð fyrir. Hv. aðalflm. hneykslaðist á þessu og nefndi það að leggja skatt á skuldirnar. Það er ekki eins dæmi, að þeir, sem skuldugir eru, greiði skatta. Það var líka vitað mál, að stóru rafveiturnar gátu ekki komizt upp nema með aðstoð ríkissjóðs, enda hefði áreiðanlega verið talið borga sig að koma þeim á fót, þó að þær yrðu að greiða gjald, til þess að flýta, fyrir því, að aðrir landsmenn gætu notið sams konar hlunninda. Um þetta þýðir ekki að deila, og ég hafði ekki ætlað mér það. En ástæðan til þess, að við framsóknarmenn gerðum slíka till., var sú, að við töldum ófullnægjandi að treysta eingöngu á framlög úr ríkissjóði. Það þarf að fá traustari tekjustofna fyrir slíkan sjóð. Þess vegna er í till. til þál. um raforkumál lagt til, að kosin verði n. til að gera till. um fjáröflun handa slíkum sjóði, og vænti ég, að frá flm. þessa frv. megi vænta stuðnings við þá till.

Ástæðan til þess, að við framsóknarmenn lögðum ekki jafnhliða fram till. um stofnun sjóðs, var sú, að búið var að ráðstafa verulegum hluta af tekjuafgangi ársins 1941, og töldum við eðlilegt, að beðið yrði næsta reglulegs þings með að ákveða, hve mikið yrði tekið í sjóðinn af tekjum ársins 1942, þegar fyrir lægju fullnægjandi upplýsingar um fjárhaginn á því ári. Ég vona, að það verði svo, að hægt verði að leggja miklu meira fram en þessar 500 þús. kr., sem lagt er til að veita í frv., sem fyrir liggur. Ég skal benda á, að stríðsgróðinn fer ört vaxandi samkv. hinni nýju stefnu í fjármálum, sem núv. stj. hefur tekið upp. Allir fá hærra og hærra kaup og hærra og hærra verð fyrir vörur sínar. Það er sjálfsagt gott og blessað, og ýmsir eru ánægðir. En þá eru menn líka færari en áður að greiða skatta til nauðsynjamála, og þó að á síðasta þingi hafi verið alllangt gengið í að skattleggja mesta gróðann, má samt ná háum upphæðum með því að leggja á upphæðir innan við 45 þús. kr. hjá einstaklingum. Ég vil líka í þessu sambandi minna á till. búnaðarþings um, að tekjurnar af happdrættinu verði látnar ganga til þessa, þegar sérleyfistími háskólans er útrunninn.

Það er ástæða til að fagna því, ef nú er meiri skilningur en áður hjá Sjálfstfl. á þessum málum. Hv. 3. landsk. þm. sagði, að Sjálfstfl. hefði löngum gert raforkumálið að baráttumáli sínu. Hann talaði um till. Jóns Þorlákssonar 1929, en næsti þáttur í þessu mikla baráttumáli gerist ekki fyrr en 1940, svo að flokkurinn hefur tekið sér 11 ára hvíld í baráttunni.