12.08.1942
Neðri deild: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 11. landsk. (GTh) heldur, að hann geti áminnt aðra um að segja sannleikann, og vitanlega ætti sá kostur að fylgja þeim manni, sem öðrum fremur er falið það ábyrgðarmikla starf í æðstu menntastofnun þjóðarinnar að kenna ungum mönnum að fara með rétt mál. Ég held nú samt, að þessi hv. þm. ætti sjálfur að temja sér sannleikann í stað þess að áminna aðra um það, því að ég get ekki hugsað mér, að maður í hans stöðu fari verr með sannleikann en hann gerði í síðustu ræðu sinni. Hann sagði, að Alþ. hafi verið rofið árið 1931, til þess að Sogsvirkjunin kæmist ekki í framkvæmd. Sannleikurinn er sá, að Sogsvirkjunin var framkvæmd fyrst og fremst með stuðningi Framsfl. Þetta virðist vera aukaatriði fyrir þennan hv. þm., sem er alltaf með fullyrðingar og skeytir ekki um, þótt þær séu allar eintómt fleipur. Ég á bágt með að skilja, að það þurfi prófessor í lögum til þess að skilja þetta, því að 10 ára börnum er þetta auðskilið mál. Ég hygg, að ég þurfi ekki frekar að rekja meðferð þessa hv. þm. á sannleikanum. E. t. v. segir hann í næstu ræðu sinni, að það sé allt fyrir atbeina sjálfstæðismanna, að hitaveita sé nú að komast á í Rvík, og ég er alveg viss um, að hann segir þetta. En hvað er hið rétta í því máli? Það, að hitaveitan væri komin fyrir löngu, ef aðrir hefðu ráðið en sjálfstæðismenn.

Hv. 11. landsk. áfellist ríkisstj. fyrir það, að hún skyldi ekki hafa látið fara fram rannsóknir á raforku sveitanna samkv. frv. Jóns Þorlákssonar. En það er vitað mál, að rannsóknir hafa víða verið framkvæmdar. Aftur á móti hefur Sjálfstfl. alltaf verið þrándur í götu allra framkvæmda í þá átt.

Hv. 11. landsk. og hv. þm. A.-Húnv. sögðu, að ég hefði risið hér upp áðan ekki til þess að þakka þetta frv., heldur verið að koma af stað illdeilum, en eitt af því fyrsta, sem ég sagði, var að þakka þessa miklu hugarfarsbreytingu, sem orðin væri hjá Sjálfstfl. Því næst sagði ég sögu þessa flokks á undanförnum árum, og það hefur þeim líklega mislíkað, enda er sú saga ekki sem fegurst. En ég vil alltaf, að hver saga sé sögð eins og hún er.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að þetta mál hefði orðið svo seint fyrir á síðasta Alþ., að það hefði ekki gefizt nógur tími til þess að ræða það í Ed. Sannleikurinn er sá, að frv. var svæft í Ed. í n., þar sem formaðurinn var sjálfstæðismaður, og það er alkunna, að sjálfstæðismenn nota Ed. oftast til þess að svæfa mál. Það er gott fyrir lán., sem fær þetta mál til meðferðar, að rannsaka sögu þess undanfarin ár, og ég hygg, að eftir umr. hér í dag verði hv. nm. ljóst, hvaða leiðir séu heppilegastar.