27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

24. mál, raforkusjóður

Eysteinn Jónsson:

Mér virðist vera viðeigandi, að það komi fram örstutt skýrsla um afstöðu okkar hv. þm. Árn. (PHall) í fjhn. til þessa máls. Það er nú, eins og hv. þdm. er kunnugt, þannig, að af framsfl. hálfu er á þessu þingi flutt þáltill. um raforkumálin. Þar er að vissu leyti tekin upp ný stefna í þeim málum, sem er fólgin í því, að Alþ. setji sér það markmið að koma raforkumálunum þannig fyrir, að fólkið, sem býr í sveitinni, geti notið raforkunnar fyrir sama verð og það fólk, sem í þéttbýlinu býr. Þetta er sú meginstefna, sem mörkuð er með þeirri þáltill. Okkur dylst ekki, að til þess að geta komið slíku í kring, þarf mikinn undirbúning, langan tíma og mikið fjármagn. Jafnframt virðist okkur ljóst, að ef ekki verður hægt að koma því svo fyrir, að fólkið um hinar dreifðu landsbyggðir hafi við nokkuð svipuð kjör að búa í þessu efni sem öðrum eins og fólkið í þéttbýlinu, þá muni þróunin áframhaldandi verða sú, að fólkið leiti til þéttbýlisins. En það er okkar álit og fleiri, að sú þróun sé ákaflega óæskileg fyrir landið. Í þessari þáltill., sem við höfum flutt, er þá í samræmi við þessa skoðun, að til þess þurfi mikið fjármagn, lagt til, að sérstök mþn. verði skipuð til þess að gera till. um það, hvernig þessa fjár skuli aflað. Við gerum varla ráð fyrir, að þetta mál verði leyst með öðru móti heldur en því, að einhverjir sérstakir tekjustofnar verði lögleiddir málefninu til stuðnings til frambúðar. Og það var ætlun okkar, að þessi n. rannsakaði nánar möguleika á framkvæmdum í þessu efni og gerði till. um tekjuöflun til þess að standast kostnaðinn. Nú hefur þessi þáltill. enn ekki verið tekin til umr. hér á hæstv. Alþ., hvernig sem á því stendur, því að margt óþarfara hefur verið gert á þinginu heldur en að ræða hana, enda þótt allir hv. þm. mundu vera sammála um það, sem þar er sagt. Þessi þáltill. hefur alls ekki verið tekin á dagskrá og því ekki til umr. Nú hefur hins vegar verið flutt hér frv. það, sem hér liggur fyrir, og er í því gert ráð fyrir að stofna raforkusjóð með 5 millj. kr. stofntillagi af tekjuafgangi ársins 1941 og svo 500 þús. kr. tillagi á ári framvegis. Því fer fjarri, að það sé nokkuð athugavert við það, að nú á þessu þingi séu ákveðin byrjunarframlög í þennan raforkusjóð af því fé, sem nú er fyrir hendi eða kemur inn af þeim tekjustofnum, sem nú hafa verið ákveðnir í frv. Það má ljúka því hlutverki á þessu þingi, ef mönnum sýnist, og fer ekki illa á því. Þess vegna höfum við, hv. 2. þm. Árn. og ég, lagt til, að frv. þetta verði afgreitt nú. Þetta álítum við byrjunarskref í málinu, en að svo þurfi að taka málið til rannsóknar samkv. því, sem við leggjum til í þáltill. Og það er eftir sem áður skoðun okkar, að þessar 5 millj. kr. eða 10 millj. kr., ef brtt. n. verður samþ., sé byrjunarráðstöfun í málinu fjármálalega, en að það verði að skipa málinu á einhvern varanlegan hátt til frambúðar. Það er skoðun okkar, að ef þetta þing tekur sér fyrir hendur að ákveða, hve mikið af tekjum ársins 1941 skuli tekið til þess að leggja í þennan sjóð, þá liggi beinast við, að menn láti í ljós álit sitt um það, hve mikið eigi að taka til þessa sjóðs af tekjum þessa yfirstandandi árs. Ef miðað er við það, hve verkefnið er stórkostlegt, virðist okkur, að það ætti ekki að vaxa mönnum í augum, þó að 10 millj. kr. af tekjuafgangi áranna 1941 og 1942 samtals væru lagðar til hliðar í þessu skyni. Og ég skil satt að segja ekki, hvað vakir fyrir hv. 3. landsk. (SK), þegar hann lætur sér það um munn fara, að hann geti ekki tekið þær till. alvarlega og honum sýnist þær svo fjarri öllu lagi, og að ekki sé eðlilegt að gera slíkar till. miðað við það, sem lagt sé til annarra hluta af tekjuafgangi ársins 1941. Það blandast engum hugur um það, að það kostar tugi milljóna og sjálfsagt meira að skipa raforkumálunum þannig, sem telja megi viðunandi til frambúðar í landinu. Og á tveimur undanförnum árum hafa landsmenn safnað innieignum erlendis, sem eru um 230 millj. kr., og ríkissjóður hefur tekjuafgang, sem nemur milli 17 og 18 millj. kr., frá árinu 1941. Og svo framarlega sem sukkið verður ekki fram úr hófi, verður tekjuafgangur þessa yfirstandandi árs mikill. Mér þykir því ekki mikið, þó að Alþ. legði á þessum tveimur árum fram um 10 millj, kr. til þess að standa undir framkvæmd raforkumálanna í landinu. Og þá ber einnig að gæta þess alveg sérstaklega, að ef við lítum t. d. á atvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginn og landbúnaðinn, þá vitum við, að þeir, sem stunda sjávarútveg, safna nú miklum sjóðum til þess að standa undir endurnýjun framleiðslutækjanna við sjávarsíðuna, enda er gert ráð fyrir því af Alþ. að hlaupa þar ríflega undir baggann, þegar að því kemur. En söfnun fjár í sveitum landsins er ekkert í líkingu við það, sem er við sjávarsíðuna. En það er rétt að bera saman þörfina við sjávarsíðuna á stækkun bátaflotans og nýjum verksmiðjum og því, sem á að framkvæma í þeim efnum eftir styrjöldina annars vegar, og hins vegar þörf sveitanna fyrir raforkuveitur og hvers konar framkvæmdir, sem þar á að gera eftir styrjöldina. Mér finnst því sama, hvernig á þetta mál er litið, það muni alltaf koma í ljós, að ef Alþ. tekur sér fyrir hendur að ákveða framlög ríkissjóðs á þessum árum til þessara framkvæmda, þá megi þau ekki vera minni en 10 millj. kr. á þessum tveimur árum samtals sem byrjunarframlög til þessara framkvæmda. Og ég skil satt að segja ekki hugsunarhátt þeirra hv. þm., sem leyfa sér að halda því fram, að slíkar till. geti ekki verið fluttar í alvöru, þegar þetta er borið saman við annað, sem gerist í landinu: Og heldur finnst mér kaldranalegar kveðjur, sem flokksbræður hv. 3. landsk. (SK) fá hjá honum, þegar hann er með skæting í þeirra garð, því að þetta hittir þá eigi síður en okkur, sem höfum lagt til, að fjárframlögin verði aukin. Því að hv. flm. frv. gera ráð fyrir, að þessar 5 millj. kr. verði teknar af tekjuafgangi ársins 1941, en við gerum ráð fyrir, að þessar 10 millj. kr. verði teknar af tekjuafgangi áranna 1941 og 1942.

Annars vil ég benda á það í þessu sambandi, að mér finnst það ákaflega ánægjuleg stefnubreyting, sem hefur átt sér stað hjá sjálfstæðismönnum, ekki aðeins í rafveitumálunum, heldur líka stefnubreyting, sem kemur fram í því, að þeir skuli nú vera tilleiðanlegir til þess að leggja fé til hliðar á þennan hátt. Því að á síðasta þingi var hér frammi frv. um framkvæmdasjóð ríkisins, þar sem lagt var til, að 3/5 af tekjuafgangi stríðsgróðaáranna væru lagðir til hliðar til hvers konar framkvæmda eftir stríðið, til þess að styrkja rafveitur, koma upp nýbýlum, endurnýja flotann og til fleiri framkvæmda, sem þörf er að styðja. Þá risu sjálfstæðismenn öndverðir gegn þessu frv., og töldu þeir undarlegt að skipta ríkissjóði þannig niður í deildir eða setja hann í margar skúffur, eins og þeir orðuðu það þá, þannig að úr þessari skúffunni ætti að taka til þessara framkvæmda og úr hinni til annarra o. s. frv. Því var tekið af engum skilningi né vinsemd af Sjálfstfl. þá. En það er ánægjulegt, að þeir hafa nú séð, að andstaða þeirra gegn þessu máli, sem er mjög vinsælt í landinu, var órökstudd og að ófyrirsynju. Það er gleðilegt, að þeir hafa nú skipt um stefnu og vilja vera með því að leggja þarna til hliðar fé til þess að styrkja rafveitur. Það er nú af, sem áður var, þegar því voru valin hæðiyrði að leggja þannig fé til hliðar.

Hv. 3. landsk. gagnrýnir það, er hann segir, að hér sé verið að ráðstafa fé, sem ekki sé fyrir hendi, að mér skilst. Ég gat ekki skilið ræðu hans öðruvísi. Hann rökstuddi það með því, að það væri búið að samþykkja l. um framkvæmdasjóð o. fl., þar sem gert væri ráð fyrir, hvernig ætti að verja tekjuafgangi ársins 1941. Og svo hafa komið fram till., sagði hann, um að ráðstafa af þessum tekjuafgangi fé á ýmsan hátt, sem hann til tók. Það er alveg út í hött hjá þessum hv. þm., þegar hann telur till., sem ekki er búið að samþykkja, með því, sem þegar er búið að samþykkja. Þess ber enn fremur að gæta, að sá varnagli er sleginn í till. n., að ef 2/5 hlutar tekjuafgangs áranna 1941 og 1942 nema ekki hinni tilteknu upphæð, þá skuli það, sem á vantar, lagt fram úr framkvæmdasjóði ríkisins, og er það í fullu samræmi við það, að það er ætlazt til þess í alvöru, að þessar 10 millj. kr. verði lagðar til hliðar til raforkumálanna, og líka í samræmi við þann upphaflega tilgang með stofnun framkvæmdasjóðs, þar sem til þess var ætlazt, að hluta af honum væri varið til raforkumála, ef Alþ. svo sýndist.

Aftur á móti sé ég, að það hefur hent einn af meðflm. frv. að leggja til, að varið verði hærri upphæð af tekjuafgangi ársins 1941 heldur en fyrir hendi er, því að sá hv. þm. flytur þáltill. um það að verja 2 millj. kr. af þeim tekjuafgangi til þess að styðja útgerðina með sérstökum hætti. En ég hygg sönnu næst, að ef heimildir dýrtíðarl. væru notaðar, gildandi fyrir árið 1941, þá sé ekki fé fyrir hendi til þessa. Og af því að þessi hv. þm. flytur þessa till. með hv. 3. landsk. þm. (SK), held ég, að hv. 3. landsk. ætti að vara hann við heldur en að vera með þennan skæting, sem hann er með nú gagnvart okkur framsóknarmönnum.

Aðalatriðið er, að þessar brtt. fjhn. gætu orðið samþ. og málið þannig afgr. Og ég vil sérstaklega biðja þá menn, sem finnst 10 millj. kr. mikil upphæð fyrir ríkissjóð að greiða á 2 árum, að athuga það, sem er að gerast nú á þessum síðasta tíma í fjármálum og atvinnumálum, og einnig að bera þessa upphæð annars vegar saman við þær gífurlegu innistæður, sem þjóðin eignast nú, og þær upphæðir, sem ríkissjóður hefur yfir að ráða, og tekjuafgang þann, sem hann mun hafa, og hins vegar við þann geysilega kostnað, sem hlýtur að verða við framkvæmd raforkumálsins, eins og það vakir fyrir okkur nú hér á hæstv. Alþ.