27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Að vísu er ekki þörf á að rekja nánar ummæli, sem fallið hafa hjá hv. flm. um þetta frv., eftir að hv. 1. þm. S.-M. (EystJ) hefur bent á það helzta., sem við þau var að athuga. Þó get ég ekki komizt hjá því að benda á það, að 1. flm. þessa frv. sagðist hafa búizt við því áður en hann kom hingað til þings, að erfitt mundi að fá samkomulag um það, að 5 millj. kr. yrði varið til þessara hluta. Hann hafði einnig gert sér í hugarlund, að það mundu nokkrir erfiðleikar á því að fá sæmilega afgreiðslu á slíku máli sem þessu, þar sem honum sem öðrum er kunnugt um þær tilraunir, sem gerðar hafa verið þing eftir þing til þess að ná samkomulagi um að afgreiða þetta mál á einhvern hátt, og honum er kunnugt, að allar þær tilraunir hafa strandað. Þess vegna er ekki óskiljanlegt, þó að hv. þm. hafi dottið í hug, að erfitt væri að ná samkomulagi, og hann upplýsti hér, að hann hefði haldið, að erfitt mundi að ná samkomulagi við framsóknarmenn um 5 millj. kr., hvað þá meira. Nú held ég, að einhver hafi gefið honum rangar hugmyndir, áður en hann kom hingað til þings, ef hann hefur haldið það, að náðst hafi samkomulag innan hans flokks um þetta mál. Hv. flm. þarf ekki annað en athuga afgreiðslu fjhn. á þessu máli og afstöðu hv. 3. landsk., sem sæti á í fjhn., og það, sem hann lét til sín heyra um þetta mál, til þess að sannfærast um, hversu gott samkomulag hefur náðst innan hans flokks um þetta mál. Þess vegna er það rétt, að hann beini geiri sínum í þá áttina, ef honum finnst erfitt að fá samkomulag í þessu máli. Við framsóknarmenn erum og höfum verið reiðubúnir til þess og höfum lagt í það mikla vinnu á undanförnum árum að reyna að ná einhverju samkomulagi í þessu máli, en það hafa alltaf komið upp í flokki hv. flm. menn eins og hv. 3. landsk., sem hafa spillt því, að viðunandi samkomulagsgrundvöllur fengist í þessum málum. Þetta held ég, að hinir nýju þm. hefðu gott af að gera sér ljóst og athuga, hvar erfiðast hefur verið að ná samkomulagl. Ég held, að það liggi hér skýlaust fyrir, hve stórhuga þessi flokkur hefur verið hér í þinginu um þetta mál. Þegar við framsóknarmenn bárum fram frv. um rafveitusjóð, þá guggnuðu sjálfstæðismenn allir nema einn, hv. þm. Borgf., hann hélt áfram tilraunum til að koma málinu áfram, en fékk þar um engu ráðið í flokki sínum. Sjálfstfl. gat þá ekki hugsað sér, að lagt yrði meira fé til þessara mála en 50 þús. kr. á ári. Það er því ekkert óeðlilegt, þó að þessir hv. þm. séu hreyknir af því, hvað stórhuga Sjálfstfl. hafi verið í þessu máli á undanförnum árum. 50 þús. kr. á ári, það var þeirra stórhugur. Það má segja það, að það þarf ekki mikinn stórhug til þess að koma með og taka upp frv. annarra manna, eins og hér er gert. Hér er aðeins því breytt frá því, sem var í frv. okkar framsóknarmanna, að gert er ráð fyrir 5 millj. kr. framlagi í stað 1 millj. Það hefur nú ekki tekizt betur til með þessar 5 millj. heldur en það, að þær eru alls ekki fyrir hendi. Ég held því, að varla sé hægt að auglýsa betur en hér er gert, hversu lítil vandvirkni og hversu lítill stórhugur er í því máli, sem þessir hv. þm. hafa borið fram.

Hv. 3. landsk. þm. hefur lýst því með miklum fjálgleik, að þetta væri baráttumál Sjálfstfl. og hefði verið það á undanförnum árum. En aðeins í fyrstu átökunum, þegar reyndi á samkomulagið, sýndi það sig, að helmingur liðsins í fjhn. gat ekki fylgt þeim grundvelli, sem lagður var í málinu og ætlazt var til, að byggt yrði á.