27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

24. mál, raforkusjóður

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Það er aðeins lítil aths., sem ég vildi gera út af tveimur atriðum, sem blandazt hafa hér inn í þessar umr. frá hendi hv. 1. þm. S.-M. (EystJ). Hann talaði hér allgildlega um þrjózku og andúð af hendi okkar sjálfstæðismanna gegn því að safna fé í sjóð til ýmissa framkvæmda og minntist þar á l. um Framkvæmdasjóð ríkisins, sem ýmsir hefðu verið á móti. Nú er það svo um þennan framkvæmdasjóð, að hann er ekkert annað en það, að það á að skipta ríkistekjunum í tvennt; sumt af tekjunum á að falla í sjálfan ríkissjóðinn, en allverulegur hluti, 8 millj. kr., af tekjuafgangi ársins 1941 og 3/5 af tekjuafgangi yfirstandandi árs eiga að falla í sérstakan sjóð, sem heitir framkvæmdasjóður ríkisins. Vitanlega eru báðir þessir sjóðir til umráða fyrir hæstv. Alþ. og ríkisstj. En það, sem hér er gert, er bara að skammta þetta í tvær skálar. Og ákvæði l. um framkvæmdasjóð ríkisins, einkum það, hvernig fénu skuli varið, eru mjög lausleg. Þar er hrært saman ýmsu því, sem hv. flm. frv. að þeim l. datt í hug, að þyrfti að framkvæma, en ekkert er þar til tekið um skiptingu á því fé til hinna ýmsu málefna, sem nefnd eru í þeim l. Nú álít ég langbezt, eftir því sem við verður komið, að fjárveitingar af tekjum ríkisins komi á fjárl., en það er ekki hægt að koma slíku við í sambandi við ráðstöfun þessa fjár. En það hefur ekki verið gert fyrr að taka nokkuð af tekjum ríkissjóðs og ákveða, að það eigi að verja þeim til málefna, sem grautað er saman í l. um framkvæmdasjóð ríkisins. Það liggur ákaflega nærri að álykta, að með þessum l. sé stefnt að því, að auðveldara væri að draga fé út úr til einhverra framkvæmda, sem einhverjum, sem hafa þingmeirihluta í það og það skiptið, kynni að detta í hug, heldur en að það hafi vakað fyrir að veita fé skynsamlega úr ríkissjóði til þessara framkvæmda. Og fyrst ekki var stofnað til neinna framkvæmda þegar í stað, þá var ekki hægt að sjá, að hverju leyti var betra að skipta tekjum ríkissjóðs í þessa tvo sjóði heldur en að láta það vera í ríkissjóði og vera háð þeim venjulegu skilyrðum, að Alþ. setti ákvæði um, hvernig því skyldi varið. — Allt skraf um það, að sjálfstæðismenn hafi verið á móti þessum fjárveitingum úr þessum sjóði, er ekkert annað en belgingur. Og það hefur ágreiningslaust verið veitt fé úr ríkissjóði til flestra þessara greina.

Hv. sami þm. var einnig í allmiklum ásökunartón að tala um ágreining í skattamálum, þar sem Framsfl. hefði viljað taka mikið fé með skattal. til ríkissjóðs, en ýmsir, a. m. k. sjálfstæðismenn, hefðu verið þar á annarri skoðun og viljað ganga skemmra í þeim efnum. Ég held, að þessi hv. þm. hafi á engan hátt sýnt, að hann sé þess umkominn að kenna öðrum hv. þm., hvernig þessum málum skuli hagað. Það hefur hver hv. þm. sína skoðun á því, misjafnlega rökstudda. Ég hef komið fram með þann rökstuðning, að heppilegt væri, að atvinnufyrirtæki landsins ráði yfir miklu fé til þess að viðhalda atvinnurekstrinum, einkanlega til þess að viðhalda atvinnutækjunum. Og ég tel mjög illa farið að færra atvinnufyrirtækin öllum þeim gróða, svo að segja, sem til fellst sem stríðsgróði. Það er engin trygging fyrir því, að hæstv. Alþ. verði þannig skipað í framtíðinni, að þetta fé fari á eins heilbrigðan hátt til þess að halda við framleiðslunni í landinu eins og ef það væri hjá atvinnufyrirtækjunum sjálfum. Það hefur verið reiknað út og birt í sjómannablaðinu, að einn togari hafi á þessum þremur stríðsárum fengið í endurnýjunarsjóð um 100 þús. kr. og áætlað er, að það kosti 2–3 millj. kr. að smíða togara. Af þessu er nú bersýnilegt, að svona atvinnufyrirtæki geta ekki endurnýjað framleiðslutæki sín nema því aðeins, að endurbyggingarsjóði sé ætlað miklu meira fé. Í þessu sambandi er bent á það, að þessi fyrirtæki fái að leggja ríflega fé í varasjóði. En það vitum við allir, sem þekkjum til sjávarútgerðar, að varasjóðirnir eru fyrst og fremst ætlaðir til þess að standast rekstrarörðugleika, en ekki til nýbygginga.

Ég er ákaflega hræddur um, að með þeim skattal., sem nú gilda og margir vilja, að gangi lengra í því að taka gróðann af atvinnufyrirtækjum, sé einmitt stefnt til atvinnuleysis að stríðinu loknu. Og ég held, að enginn vafi sé á því, að með þeim skattal., sem nú gilda, sé stefnt til þess, að bráðlega eftir stríðið verði hér tilfinnanlegt atvinnuleysi og að atvinnufyrirtækin dragist saman langtum meira en heilbrigt er. Því að það er auðvitað ekkert annað fyrir hendi fyrir þau, þegar þau eru farin að hafa taprekstur, en að minnka atvinnureksturinn.

Það hefur verið gerður mikill ágreiningur af minni hendi út af skiptingu stríðsgróðans milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna. Hlutfallið milli tekjuskatts þess, sem ríkinu hefur fallið í hlut annars vegar og sveitarfélögunum hins vegar, hefur á undanförnum árum verið þannig, að sveitarfélögin hafa notið ferfaldrar upphæðar af þeim tekjustofni á við það, sem ríkinu hefur fallið í hlut af tekju- og eignarskattinum. En þegar þessum stríðsgróðaskatti er skipt, þá er það gert þannig, að ríkissjóður fær 55% en sveitarfélögin 45% af honum. Nú hefur því verið svarað til út af þessari skiptingu, að hlutur bæjar- og sveitarfélaganna muni nægja fyrir venjulegum útgjöldum. Þá er miðað við sárustu þarfir, sem þurft hefur að fullnægja undanfarið. En það er ekki ólíklegt, að bæjar- og sveitarfélög verði eftir stríðið hvert fyrir sig að veita meira fé til stuðnings ýmiss konar atvinnurekstri heldur en þau hafa gert á undanförnum árum. Ég held því, að öll svigurmæli í þessa átt séu sprottin af vanþekkingu og þá e. t. v. löngun til þess að ófrægja þá, sem eru á öndverðri skoðun. En það er annarra en hv. 1. þm. S.-M. að dæma um það, hvor okkar hafi fært fram betri rök í málinu. Þetta er ekki beint viðkomandi þessu máli, sem fyrir liggur, og hefði ég ekki farið út í það, ef hv. 1. þm. S.-M. hefði ekki farið fyrst út í það í hörðum ásökunartón.