27.08.1942
Neðri deild: 16. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Það er ekki mikið að segja gagnvart þeim ummælum, sem fallið hafa hjá hv. sjálfstæðismönnum í þessu máli. Ég hygg, að það sé eins dæmi hér í þessu hæstv. Alþ.,flm. hafi fengið aðrar eins undirtektir um flutning á máli sínu, þannig að þeim er heitið af stærsta flokki þingsins allur stuðningur, ekki aðeins til þess að koma málinu fram á Alþ., heldur helmingi meiri. En þessir hv. þm., sem standa að flutningi þessa máls, snúast með fúkyrðum að þeim flokki, eins og skemmst er að minnast, er hv. þm. N.-Ísf. (SB) var að belgja sig út með því að vitna í biblíuna og taka hörð ádeiluorð, sem vissulega eiga við um ýmsa menn oft, og þykist geta sagt þau um þessa menn, sem heitið hafa hv. flm. frv. stuðningi sínum um að koma því fram á Alþ. Mér datt í hug, þegar hann vitnaði í heilaga ritningu, að ef nokkur orð úr henni ættu við hann, þegar hann stóð þarna og belgdi sig upp í þessu máli, þá væru það þessi orð :Sælir eru einfaldir, — vegna þess, að ég vil alls ekki gera ráð fyrir því, að þessi hv. nýi þm. flytji hér mál sitt móti betri vitund. Ég er sannfærður um, að hann er sæll í sinni einfeldni, þeirri trú, að hann mundi ekki þurfa að berjast við sinn eigin flokk til þess að koma fram áhugamálum sínum fyrir dreifbýlið, heldur séu það framsóknarmenn, sem séu hinir sönnu fjandmenn þess að koma fram umbótum fyrir dreifbýlið; og það er gott að geta lifað sæll í sinni trú, — og bráðnauðsynlegt, þegar þm. koma fyrst inn á þing og vita, hvernig raunveruleikinn er fjarri öllu því, sem þeim hefur verið kennt í sínum pólitíska barnalærdómi.

Hv. þm. N.-Ísf. (SB) sagði, að flm. hefðu ekki látið sig dreyma um, að takast mundi að koma fram þessu máli á þann veg, sem það liggur hér fyrir, og sjónarmið hans myndast eftir því, hvað hann dreymir um eftir afstöðu hans flokks. Enda er það ekki ástæðulaust, þó að þeir draumar séu ekki stórir, eftir afstöðu eins af flokksmönnum hans, sem er í fjhn. Meira að segja hann (SK) og hv. 1. fim. frv. (IngJ) eru svona með hálfgerð ónot út af því að taka 5 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1942 og verja því til þessa málefnis. Þeir segja, að það sé óviðkunnanlegt að ráðstafa þessu fé, áður en vitað sé, hve mikið það verði. Við vitum, að það er alveg víst, að með viðbót af fé framkvæmdasjóðs, ef á þarf að halda, er hægt að fá þessa upphæð af tekjuafgangi ársins 1942. Það er náttúrlega talsvert einkennilegt hjá þessum hv. þm., þegar hann fer að afneita flokksbræðrum sínum, sem voru á þingi 1940 og komu fram með till. í málinu. — Hv. þm. snýr sér við og segir, að það sé ósatt, að það hafi verið fyrsta till. sjálfstæðismanna í málinu, heldur hafi það verið till. Jóns Þorlákssonar 1929. Nú eru liðin 13 ár, síðan þær komu fram, og í 10 ár sofa þessir menn á málinu. Og hver var svo stórhugurinn í þessum málum hjá Sjálfstfl. 1929? Hvað var þá lagt til að leggja fram? Eftir því sem ég hef kynnt mér þær till., þá var ekki í þeim lagt til að leggja fram einn einasta eyri. En eftir að þessir menn hafa sofið á málinu í 10 ár, er fyrsta till. þeirra um fjárframlög til þessa málefnis — 50 þús. kr. á ári í 10 ár! Það er rétt fyrir þennan hv. þm. (SB) að fletta upp Alþt. og athuga, hvort þetta muni ekki vera rétt. Mér þætti svo gaman að heyra, hvenær Sjálfstfl. hefur flutt till., sem taka fram þessum till. um 50 þús. kr. (!) á ári. Ég hef ekki getað séð þær. Ég held, að þessi hv. þm. verði að fletta lengi til þess að fá út aðrar upphæðir í till. hv. sjálfstæðismanna um þessi mál.

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að elta ólar við þennan hv. þm. um þetta mál. Ef hann og flokksbræður hans geta lifað sælir í sinni trú um það, að Sjálfstfl. sé svo ákaflega öruggur að standa að framgangi þessa máls, þá sé ég ekki annað en að þeir verði að vera áfram í þeirri trú. Og það mun þeim vera hollast, ef hugarfar þeirra er þannig, að þeir geti ekki litið á nokkurt mál öðruvísi en á þann hátt að gæta fyrst og fremst að því, hvernig þeir geti fyrst og fremst notað það flokki sínum til framdráttar. Ég álít þó, að þessir menn ættu að fagna því, að máli, sem þeir flytja, veitist stuðningur, en ekki að vera að kasta ókvæðisorðum, illyrðum og stóryrðum í garð þeirra manna, sem vilja ekki aðeins hjálpa þeim til að koma fram því máli, sem þeir bera fram, heldur ganga lengra en þeir gera um þetta stórmál, sem er áhugamál þeirra. En það er auðséð, að undir niðri hafa þeir haft sömu skoðun og hv. 3. landsk. þm. (SK), að alveg eins mætti nota þetta mál í landsmálum eins og t. d. hitaveitumálið var notað í einn tug ára til þess að hafa fyrir kosningamál hér í Rvík. Það var talað mikið um það fyrir hverjar kosningar hér í bænum á því tímabili, að það þyrfti endilega að koma hitaveitunni í framkvæmd sem allra fyrst, en svo sem ekkert gert í því á eftir, þar til svo sem 4 mánuðir voru til kosninga. (Forseti JP: Þetta er ekki til umræðu.) Ég mun, hæstv. forseti, tala um það, sem mér þykir þurfa. Þessi saga minnir vel á, hvernig þessi flokkur vill græða á málum. Og þessir menn hafa hugsað sér — það var auðheyrt á ræðu hv. 3. landsk. (SK) — að nota þetta mál eins nú.

Ef stórhugur er nokkurn tíma lofsverður, þá er hann það, þegar nóg er til af fé og hann beinist að því, að menn vilja verja því fé til þess að knýja fram mjög nauðsynleg og aðkallandi mál. Og það væri hægt á mörgum árum, þó að kreppuár kæmu einnig, að leggja fram smátt og smátt fé til þessara hluta. Þó ekki væri nema 500 þús. kr. á ári, þá er það þó töluvert framlag.