01.09.1942
Efri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

24. mál, raforkusjóður

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) :

Fjhn. hefur átt fund um þetta mál og fékk hæstv. fjmrh. til að koma á fundinn. Samkv. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að af tekjuafgangi 1941–42 verði lagðar 10 millj. kr. til raforkusjóðs samkv. frv. N. þótti rétt að leita álits fjmrh. um það, hvort ætta mætti, að þetta fé væri fyrir hendi. Samkv. l. um framkvæmdasjóð ríkisins frá síðasta þingi er svo ákveðið, að af tekjuafgangi ársins 1941 skuli leggja 8 millj. kr. í framkvæmdasjóð ríkisins og af afgangi 1942 skuli til viðbótar leggja 3/5 hluta í sama sjóð. Með tilliti til þessa og nokkurra fleiri áréttinga, sem liggja fyrir þinginu, þótti hlýða að leita álits hæstv. fjmrh. Tjáði hann n., að búið væri nú þegar að ákveða greiðslur af tekjuafgangi 1941 til viðbótar þeim 8 millj. kr., sem eiga að leggjast í framkvæmdasjóð, og taldi hann, að stærstu greiðslurnar gætu orðið verðuppbót á landbúnaðarafurðir fyrir árið 1941. Hann gerði ráð fyrir, að ætla mætti, að einhverju væri enn óráðstafað af tekjuafgangi þessa árs. Um útkomuna 1942 kvaðst hann ekki geta fullyrt, en taldi líklegt, að samanlagður tekjuafgangur bæði þessi ár — umfram það, sem búið er að ráðstafa með l., — mundi hrökkva fyrir þessum framlögum til sjóðsins. — En að sjálfsögðu tók hann fram, að ekki væri með neinni vissu hægt að segja um þetta.

Með tilliti til þessa fellst n. á að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. Mér þykir rétt að geta þess, að það kom fram í n., að galli nokkur þótti á frv., og að því er ég bezt veit, kom ekkert fram í Nd., sem bætti úr. En gallinn var sá — ég segi þetta mest fyrir mig persónulega, — að ekki er sérstakt samhengi á milli l. um rafveitur ríkisins og þessa frv. um raforkusjóð, því að það liggur í augum uppi, ef ríkissjóður á að leggja 10 millj. kr. í raforkusjóð nú á næstunni, að þá hefur hann því minna fé til að byggja fyrir rafveitur ríkisins. Okkur nm. þótti þó ekki rétt, þar sem svo áliðið er þings, að koma fram með till. um þetta. En ég álít ekkert til fyrirstöðu, þótt frv. yrði samþ. óbreytt, að féð yrði notað til þess að byggja rafveitur ríkisins. 1. gr. þessa frv., þar sem ákveðið er, að fénu skuli verja til þess, að komið verði upp raforkuverum, virðist vera í fullu samræmi við 2. gr. l. frá því í fyrra, þar sem segir, að rafveitur ríkisins skuli hafa það verkefni að afla almenningi raforku o. s. frv. Þær rafveitur hljóta að eiga tilkall til þessa fjár engu síður en einstök byggðarlög. — N. mælir öll með því, að frv. sé samþ., þó að nm. hafi sérskoðanir um einstök atriði. Hv. 1. þm. Eyf. skrifaði undir nál. með fyrirvara, sem hann mun gera grein fyrir. Ég hef borið fram brtt. á þskj. 178, þess efnis, að inn í 1. gr. sé bætt kaupstöðum, og orðast þá síðari málsliður svo: „Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því, að reist verði raforkuver og raforkustöðvar í sveitum, kaupstöðum og kauptúnum.“

Ég fæ ekki séð nokkra minnstu ástæðu til þess að einskorða hjálp úr sjóðnum eingöngu við kauptún og sveitir. Þetta fé, 10 millj. kr. og 500 þús. kr. á ári eftir það, er allverulegt, og þó að verkefnin, sem óleyst eru, séu stórkostleg, ætti sjóðurinn með tímanum að hrökkva til margra hluta. Ég ætlast ekki til, að ríkið bindi fé sitt í fyrirtækjum, sem velta milljónum, fyrir stærstu kaupstaðina, svo sem Reykjavík og Akureyri. En hvaða vit er í því, að Húsavík t. d. eða Sauðárkrókur eða Keflavík njóti þessara hlunninda, en hvorki Seyðisfjörður né Akranes? Ég gæti fallizt á, að brtt. mín yrði orðuð svo, að hún næði aðeins til smærri kaupstaðanna, ef það skipti miklu máli í framkvæmdinni. Ég vildi mega vænta þess, að hv. dm. féllust á þessa sanngjörnu till. og greiddu henni atkv. Hv. meðnm. mínir gátu ekki fallizt á, að n. bæri hana fram, og báru við, að frv. mætti ekki tefjast á því að fara milli deilda. En mörg mál, sem ljúka þarf, eru eftir, svo að ég get ekki óttazt þetta.