01.09.1942
Efri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

24. mál, raforkusjóður

Eiríkur Einarsson:

Hér er um það mál að ræða, sem sjálfsagt er að veita brautargengi. En ég verð að segja, að frv. í þessum 5 gr. ber þess merki að vera heldur snöggsoðið og að það hafi verið hröðum höndum að því unnið á því mikla uppboði, þar sem það hefur orðið til og tekið framþróun sinni. Ég get ekki annað en minnzt á það, sem mér finnst mest vanta í frv., eins og það er, en það er, að hverfandi litlar hömlur eru við því, til hvers féð skuli veitt og hvernig rafvirkjuninni skuli hrundið í framkvæmd, og gæti ég að nokkru leyti tekið undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. tók fram um fyrirvara sinn í málinu. Ég sé ekki betur en í raforkumálum eigi að ráða sömu meginstefnumið og í póst- og símamálum. Undirbúningur þeirra og framtíðarskipun verður því mjög kominn undir hinu opinbera, hjá því getur varla farið, og þá þarf frá upphafi við því að sjá, að ekki ráði í þeim málum of mikið handahóf. Ég vil ekki þurfa að skýra þann hlut nánar fyrir hv. þm. En þrátt fyrir það, sem í frv. vantar, vil ég ekki gera neitt, sem tafið gæti alvarlega, og hindrað framgang þess.

Í 1. gr. frv. er talað um tilgang þess, að stuðla að því, að reist verði raforkuver í sveitum og kauptúnum. Mér þykir það nokkuð mikill einskorðun að binda hlutverk sjóðsins við það að reisa raforkuver og raforkustöðvar, — rafveitur eru ekki nefndar. En eitt af því, sem nú er brýnast að gera, eru rafveitur frá þeim stöðvum, sem fyrir eru eða brátt koma upp, til staða, sem hafa mikla raforkuþörf. Ég vil t. d. nefna orkuveitu frá Sogi til Eyrarbakka og Stokkseyrar. Orkuverin sjálf geta að vísu verið svo mikill fengur þeim, sem hlut eiga að máli, að minni stuðning þurfi til að gera leiðslur en raforkur, en mér finnst ekki eiga að útiloka þær, og munu margir vera á því máli, að þannig megi ekki afgreiða lögin. Ég vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. þess efnis, að í stað orðanna „reist verði raforkuver“ í 1. gr. komi: gerðar verði rafveitur og reist verði raforkuver. — Mér þykir öll sanngirni mæla með, að hin mikla þörf á þessu verði tekin til greina, og vænti þess, að hv. þdm. geti á það fallizt.