01.09.1942
Efri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

24. mál, raforkusjóður

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er komið fram, og vona ég, að það nái samþykki. Mér hefur skilizt á sumum þm., bæði hv. 10. landsk. og hv. þm. S.-Þ., að þeim finnist þetta frv. nokkum halaklippt og segi heldur lítið, og satt er það, að sé það borið saman við frv., sem kom fram í Nd., hefur það stytzt nokkuð mikið. Eigi að síður felli ég mig betur við frv. í þessari mynd, því að það fjallar nú einungis um sjóðstofnunina. Ég tel, að rétt sé að halda sér eingöngu við það, ef þetta þing á að geta afgreitt málið, því að hitt, hvernig sjóðinn skuli nota, þarf miklu meiri athugunar við en svo, að hægt sé að vinna það verk á þessu þingi.

Ræða hv. þm. S. Þ. liggur utan við svið þess máls, sem hér er um að ræða. Það er að vísu rétt, að þetta er mikið landsmál. Árið 1929 var borið fram hér á þingi frv. um raforkuveitu ríkisins, og átti þar að draga hinar stóru línur í málinu, en það mætti litlum skilningi þá, líka hjá hv. þm. S.-Þ., að ég held. Nú segir hv. þm. um þetta frv., að það sé eins konar snuð, og get ég ekki verið honum sammála um það, því að hér er það með, sem jafnan vantar í snuðtill. þær, sem fram eru bornar hér á Alþ. Í þessu frv. er sem sé gerð grein fyrir því, hvernig skuli afla fjár til þess, sem um er að ræða. Það hefði einhvern tíma verið kallað annað en snuð, að Alþ. veitti 10 millj. kr. og von um ½ millj. kr. á ári eftir það í sjóð til opinberra framkvæmda.

Hv. 10. landsk. hefur borið fram brtt., og vill hann, að rafveitur séu hafðar þarna með, eins og var í frv. upphaflega. Ég veit ekki, hvort orðið „rafveitur“ hefur verið tekið úr frv. viljandi í hv. Nd., en þar stóð, að tilgangur sjóðsins skyldi vera að veita styrki til að gera raforkuver og raforkuveitur. Í brtt. stendur, að sjóðurinn eigi að stuðla að því, að gerðar verði rafveitur og reist raforkuver. Ég kann betur við fyrra orðalagið. En það væri mikil og óréttmæt takmörkun á starfssviði þessa sjóðs, ef ekki mætti nota hann til þess að styrkja rafveitur, því að vitað er, að höfuðerfiðleikarnir, að því er sveitirnar snertir, eru leiðslurnar frá rafstöðvunum. Það má reyndar segja, að stofna mætti með öðrum l. sjóð til að styrkja veitur, en mér finnst þó eðlilegra að láta sama sjóðinn vera til styrktar hvoru tveggja.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta, en aðeins geta þess, að till. hv. þm. Seyðf. á mikinn rétt á sér, en hún á að tryggja það, að kaupstaðirnir verði ekki útilokaðir frá því að njóta góðs af sjóðinum, þar sem kauptúnin eru tekin með, en þar á milli eru oft ógreinileg mörk, stundum aðeins lagalegs eðlis, en ég held, að heppilegra væri að orða till. þannig, að þetta væri nokkru takmarkaðra og greinin aðeins látin ná til smærri kaupstaðanna.