03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

24. mál, raforkusjóður

Skúli Guðmundsson:

Þetta frv. hefur nú verið sent með breyt. frá hv. Ed., og er ég sammála síðasta ræðumanni um það, að frv. hafi verið skemmt þar. Hins vegar þykir mér afstaða hans hálfeinkennileg, að hann skuli ekki gera tilraun til að færa frv. í þess fyrra horf.

Hv. Ed. hefur gert breyt. á 1. gr. frv., þar sem talað er um tilgang sjóðsins. Þar er bætt inn í: „hinir smærri kaupstaðir“. Það er ekki greinilegt, við hvað er hér átt, en gætu þó allir kaupstaðir utan Rvíkur komið til greina.

Nú liggja fyrir þessu þingi beiðnir um ríkisábyrgðir vegna rafveitna Akureyrar og Ísafjarðar upp á 3 millj. kr. Hér er um viðbótarframkvæmdir að ræða, því að þessir kaupstaðir hafa vatnsaflsstöðvar fyrir. Auk þess er Siglufjörður með beiðni um ríkisábyrgð vegna rafveitu upp á 6 millj. kr. Þetta eru samtals 9 millj. kr. Mér skilst nú eftir þessu frv., eins og það kemur frá Ed., að ráðh. geti fullnægt þörfum þessara kaupstaða, áður en nokkru fé er varið til sveitanna í þessu skyni. Þar að auki geta fleiri en þessir 3 kaupstaðir orðið á undan sveitunum. Frv. er því allt annað orðið en það var, og aðeins óverulegum hluta af tilgangi þess er náð, eftir því sem flm. þess sögðu, að fyrir þeim hefði vakað. Ég er ekki að segja með þessu, að ekki sé rétt að styrkja kaupstaðina í þessum efnum, enda hefur Alþ. gert það undanfarin ár með ríkisábyrgðum og margs konar aðstoð. En þegar þetta frv. var flutt hér fyrst, var einkum talið, að því væri ætlað að bæta úr raforkuþörfinni utan kaupstaðanna, en ekki að bæta við raforkuframkvæmdir kaupstaðanna. Ég efast ekki um, að Alþ. muni framvegis eins og hingað til mæta sanngjörnum óskum kaupstaðanna í þessum efnum. En ég er sammála síðasta ræðumanni um það, að kröfurnar mundu fyrst koma frá kaupstöðunum, ef þetta frv. er þannig samþ. Mér þykir því afstaða flm. frv. harla einkennileg, ef tilgangur þeirra er sá, sem yfirlýst hefur verið, að þeir skuli ekki reyna að fá frv. breytt. Ef þeir vilja ekki reyna, þá mun ég flytja við það brtt.