03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

24. mál, raforkusjóður

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég get tekið undir með þeim hv. þm., sem hér hafa talað um það, að breyt. frá Ed. sé til að spilla þessu frv. Tilgangur þess er að stuðla að rafveituframkvæmdum í sveitum, en ekki kaupstöðum. Þó má með nokkrum sanni segja, að lítill munur sé á kauptúnum og kaupstöðum, en ég geri ráð fyrir, að aðeins allra smæstu kaupstaðirnir kæmu til greina. En ég vil ekki, að málið dagi uppi á þessu þingi, og fylgi því engri brtt. Ég geri ráð fyrir, að ekki komi til neinna framkvæmda úr sjóðnum fyrir næsta þing, sem verða mun á þessu ári, og þá gefst tækifæri til nánari ákvarðana um starfsemi hans.

Að öðru leyti tek ég fram það sama og hv. 5. landsk. og hv. þm. Ak. sögðu. Og þótt ég greiði atkv. gegn brtt. þeirri, sem hér er fram komin, þá er það ekki af því, að ég telji hana ekki sanngjarna.