03.09.1942
Neðri deild: 20. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

24. mál, raforkusjóður

Sveinbjörn Högnason:

Ég held, að það gæti misskilnings hjá sumum hv. þm., sem talað hafa um tilgang þessa frv., sem í rauninni hefur verið borið fram á mörgum undanförnum þingum. Það er vitanlegt, að bak við það býr sú tilfinning að búa sveitafólkinu sömu þægindi og kaupstaðafólkinu. Því að meðan mikill munur er þar á milli, þá fækkar fólkinu eðlilega stöðugt í sveitunum, og þjóðarvoði er fyrir dyrum. Tilgangurinn hefur vitanlega verið sá að vega á móti þessu.

Nú er fyrirsjáanlegt, eins og frv. er orðið og hv. þm. V.-Húnv. benti á, að svo getur farið, að lítið sem ekkert verði afgangs af þessu fé handa sveitunum, nema jafnhliða þeirri breyt., sem á frv. er orðin, verði sett inn í það ákvæði um, að ekkert fé megi veita úr sjóðnum, fyrr en gerðar hafa verið og lagðar fram nákvæmar áætlanir á hverjum stað, og jafnframt, að féð gangi jafnan fyrst til þeirra, sem erfiðasta hafa aðstöðuna. En ég gef ekkert fyrir þetta frv., eins og það er nú. Það er nú alveg í mótsögn við stefnu okkar, sem höfum staðið að frv. um þetta mál á undanförnum þingum, og nær ekki þeim tilgangi, sem þau voru borin fram til að ná, heldur er það í núverandi formi fallið til þess að láta þann áhalla verða enn meiri milli kaupstaðanna og sveitanna, sem verið hefur þar á milli í þessum málum. Og þá er vitanlegt, að þessar 10 millj. kr. fara til kaupstaðanna, áður en nokkur hlutur er gerður í þessum efnum í sveitunum. Þess vegna er ég fylgjandi brtt. hv. þm. V.-Húns. (SkG), þar sem miðað er við hið gamla sjónarmið, sem þetta frv. er flutt út frá. Og ég er viss um, að það er misskilningur hjá hv. þm. S.-M., að þetta frv. sé flutt með það fyrir augum, að það, sem á að vinnast með því, eigi að ná til allra, hvar sem er á landinu. Það er flutt til þess að vega upp muninn, sem hefur í þessum efnum verið milli dreifbýlisins og þéttbýlisins, því að kaupstaðirnir hafa getað bjargað sér í þessum efnum án þess að fá til þess framlag ríkissjóðs, ef þeir hafa fengið ábyrgðir. Og vafasamt er, hvort ekki er rétt að strika líka út „stærstu kauptún“, því að í langflestum tilfellum þurfa þau ekki beinan styrk til þessa. En ef kaupstaðirnir eiga að fá þetta líka, þá margfaldast því meira það, sem ríkið þarf að leggja fram, og það að óþörfu, ef ekki er haldið rétt á þessu máli, en þeir, sem verst eru settir, verða, ef till. hv. 1. þm. S.-M. er samþ. út undan og hjálparlausir í þessum efnum eftir sem áður.